Nú kemstu aftur í sund – Sjáðu hvaða breytingar taka gildi á fimmtudag

Sundlaugar opna á nýjan leik næstkomandi fimmtudag samkvæmt ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Breytingar á samkomutakmörkunum voru kynntar eftir ríkisstjórnarfund í morgun.

Meðal helstu breytinga er að 20 mega koma saman í stað 10 og þá munu líkamsræktarstöðvar opna á nýjan með helmingi af leyfilegum hámarksfjölda. Íþróttir verða leyfilegar fyrir alla og þá mega 50 vera á sviði í sviðslistum og 100 í hólfi úti í sal. Þá verða krár opnar til klukkan 21 á kvöldin og fjarlægðarregla í skólum fer niður í einn metra.

Margir munu taka þessum breytingum fagnandi enda voru páskarnir erfiðir fyrir marga, eða frá því að núgildandi ráðstafanir tóku gildi. Ágætur árangur hefur náðst í að hefta útbreiðslu veirunnar og því er gripið til ákveðinnar tilslökunar núna. Þrír greindust með COVID-19 innanlands í gær og var enginn þeirra í sóttkví. Alls eru 93 í einangrun með COVID-19.