Nú hefur Maríanna séð allt: „Hún sagði bara „Not my shit“ og brunaði í burtu“

Maríanna Eva Ragnars­dóttir, bóndi á Stór­hóli á Hvamms­tanga, hefur trú­lega séð allt eftir að kona, lík­lega er­lendur ferða­maður, skildi eftir sig veg­legan „glaðning“ á heim­reiðinni við býli þeirra. Um var að ræða manna­skít.

Maríanna sagði fyrst frá þessu í færslu á Face­book þar sem hún sagði að konan hefði verið á grárri Da­cia Duster-bif­reið. Hún hafi veitt konunni at­hygli og talið að hún væri að taka myndir af hestunum eins og ferða­menn gera stundum. Raunin var þó allt, allt önnur.

Maríanna segir að maðurinn hennar hafi komið keyrandi heim á traktor um það leyti sem konan var búin að at­hafna sig á veginum skammt frá heimili þeirra.

„Þegar hún sá ein­hvern koma þá dreif hún sig heim og sneri við á planinu hjá okkur. Maðurinn minn keyrði hérna heim til að tala við hana en þá bara dreif hún sig í burtu,“ segir hún í sam­tali við Hring­braut.

Í færslunni á Face­book segir Maríanna að eigin­maður hennar hafi sagt henni að fara og þrífa upp skítinn, en ekki hafi staðið á svörum hjá konunni. „Hún sagði bara “Not my shit” og brunaði í burtu.“

Þótt ó­trú­legt megi virðast er þetta ekki í fyrsta sinn sem Maríanna verður vitni að á­líka upp­á­tæki skammt frá heimili sínu. Þetta sé þó það grófasta hingað til og hefur hún því vonandi séð allt í þessum efnum.

„Við erum hérna þrjá kíló­metra frá sjoppu og það er ekki eins og við séum í ein­hverjum af­dal og hvergi hægt að fara,“ segir Maríanna og bætir við að þetta komi fyrir nokkuð oft. „Þetta hefur komið fyrir áður en kannski ekki svona ná­lægt bæ. Venju­lega fer fólk kannski ofan í skurð eða út á tún en gerir þetta ekki á miðjum veginum.“