Nú er einmitt rétti tíminn til að selja banka

Bankasýslan hefur ráðlagt fjármálaráðherra að hefja sölu á hlutabréfum ríkisins í Íslandsbanka. Bókfært virði bankans mun nema um 140 milljörðum króna. Vonir standa til að markaðsverð bankans geti verið hærra í ljósi þess að hlutabréf hafa hækkað verulega á liðnu ári, vextir hafa lækkað og ljóst er að eftirspurn er eftir áhugaverðum hlutabréfum.

Full ástæða er til að hvetja fjármálaráðherra til dáða varðandi þetta mál. Engin ástæða er fyrir ríkið að eiga mikinn meirihluta í bankakerfi landsmanna. Það er óeðlilegt og beinlínis hættulegt. Þau ríki sem Ísland reynir að bera sig saman við vilja alls ekki að hið opinbera eigi of mikinn eignarhlut í bönkum og fjármálafyrirtækjum. Það tíðkast ekki nema í ráðstjórnarríkjum.

Fram hefur komið í fjölmiðlum að fagmenn hvetja eindregið til þess að nú verði farið af fullum krafti í sölu ríkisbanka. Bæði vegna þess að um er að ræða óeðlilegt ástand á þesu sviði, eftirspurn er eftir hlutabréfum og auðvitað þarf ríkissjóður að selja eignir til að mæta hrikalegri skuldasöfnun sem stafar af halla á ríkissjóði sem nemur 700 milljörðum króna árin 2020 og 2021. Full ástæða er til að styðja fjármálaráðherra í þeirri viðleitni að selja fyrst 25 prósent af hlutabréfum bankans. Og helst öll hlutabréfin eins og markaðurinn leyfir. Mikilvægt er að vel takist til. Full ástæða er til að ætla að almenningur sækist eftir að kaupa litla hluti í bankanum eins og reyndist vera raunin þegar Icelandair bauð nýtt hlutafé á síðasta ári og 9.000 manns keyptu litla eða stærri hluti.

Þá verður fylgst mjög vel með því hvernig íslenskir lífeyrissjóðir bregðast við þessu útboði. Ef marka má ómálefnalegan málflutning handlangara Ragnars Þórs, formanns VR, Guðrúnar Johnsen, sem hann skipaði í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna, í ríkissjónvarpinu í gær, þá er þegar byrjaður rógur gegn sölu ríkiseigna sem ríkissjónvarpið leyfði henni að flytja átölulaust. Hún hélt því meðal annars fram að ríkisbankarnir væru með 20 prósent lána í frystingu. Í Markaði Fréttablaðsins í dag kemur fram í viðtali við bankastjóra Landsbankans að frystingin nemur einungis 7 prósent. Hvort skyldi bankastjóri Landsbankans eða útsendari formanns VR vita meira um staðreyndir þessa máls?

Sama gildir um aðra vinstri menn sem sumir eiga sæti á Alþingi. Þeir eru harðir á móti sölu ríkisbanka - af því bara. En þeir styðja eindregið aukningu ríkisskulda og hækkaðra skatta. Nefna mætti málflutning Loga Einarssonar og Oddnýjar Harðardóttur sem bæði boða nú sem mesta aukningu ríkisskulda, enn meiri útþenslu ríkisbáknsins og standa gegn sölu ríkiseigna til minnkunar á skuldum ríkissjóðs. Þau hafa þessar skoðanir en þau hafa ekki vald til að stöðva skynsamlega framvindu þessara mála.

Gott er að fá fram skoðanir þeirra á skýran hátt vel fyrir kosningar síðar á þessu ári. Þá er unnt að varast að greiða flokki þeirra atkvæði.

Fjármálaráðherra þarf að ganga enn lengra í sölu ríkiseigna til að greiða niður þann 700 milljarða fjárlagahalla sem er að skapast á árunum 2020 og 2021. Af nógu er að taka. Íslandsbanki er einungis fyrsta skrefið. Ríkið á einnig Landsbanka, Landsnet, mikinn fjölda fasteigna og fjölmörg fyrirtæki sem þurfa ekki að vera í ríkiseigu.