Notaðu matarsóda í svelginn

Óhreinindi vilja setjast - og stundum festast - í vöskum inni á baði eða eldhúsum í híbýlum fólks, enda sífellt í notkun og í snertingu við óhreinindi og bakteríur. Mörg húsráð hafa verið nefnd í gegnum tíðina sem taka á þessum vanda, en fæst þeirra virka jafn vel og blessaður matarsódinn sem sannarlega fer eins og hvítur stormsveipur um vaskana á heimilum fólks og hreinsar svelginn betur en önnur efni. Hellið litlum slurki af matarsóda í sigtina neðst í vaskinum og látið standa nokkra stund á meðan hann froðufellir og skolið svo vel á eftir. Sódinn vinnur eins og berserkur á kísil og öðrum þeim óhreinindum sem helst vilja setjast á vaskinn.