Norskt sjúkra­flug kemur Gísla loksins heim: „Við erum þakk­lát öllum þeim sem hafa hjálpað“

Gísli Finns­son sem hefur dvalið á sjúkra­húsi í Tor­revi­eja á Spáni er á loksins á leiðinni heim. Þetta kemur framí frétt Frétta­blaðsins.

Hildur Torfa­dóttir, barns­­móðir Gísla, segir að þau séu í þann mund búin að safna fyrir sjúkra­flugi Gísla til Ís­lands, en þau fengu sjúkra­flug á hag­stæðara verði.

Fjallað var nánar um mál Gísla og söfnunina í Frétta­blaðinu í gær. Gísli, sem er 35 ára þriggja barna faðir, fannst með­vitundar­­laus utan dyra þann 21. ágúst síðast­liðinn eftir að hafa farið út með fé­lögum sínum að skemmta sér í Tor­revi­eja.

Það er norskt sjúkra­flug sem var á hag­stæðara verði, og mun fara á laugar­dag frá Spáni. Það mun kosta sex milljónir, en þau eru um það bil búin að safna fyrir því. Flugið sem þau höfðu stefnt á hefði kostað átta milljónir.

„Við erum þakk­lát öllum þeim sem hafa hjálpað,“ segir Hildur. Hún tekur fram að söfnunin hafi bent á hversu mikið af góð­hjörtuðu fólki sé til staðar.

Hildur segir að þau ætli þrátt fyrir að þau séu komin með það sem þau þurfi ætli þau ekki að loka söfnunar­síðunni, ef eitt­hvað skildi koma upp á, eða ef dæmið stæðist ekki.

Þá segir hún að ef það verði ein­hver um­fram­kostnaður, þá muni hann renna til Sigurðar Kristins­sonar sem er einnig fastur á Tor­evi­eja og leitast eftir sjúkra­flugi eftir að hafa fengið heila­blæðingu. Fjallað var um mál Sigurðar í Kast­ljósi í gær.