„Nei, hér er ekki besta heil­brigðis­kerfi í heimi“

„Það er vana­lega talað um það á manna­mótum á Ís­landi að lands­menn státi af besta heil­brigðis­kerfi í heimi, en eftir að hafa búið átta ár í Þýska­landi get ég ekki annað en hlegið að þeirri stað­hæfingu,“ segir Gauti Krist­manns­son, prófessor í þýðingar­fræðum við Há­skóla Ís­lands, en faðir hans, Krist­mann Eiðs­son var eitt af 12 fórnar­lömbum hóp­sýkingarinnar á Landa­koti á síðustu vikum.

Gauti segir föður sinn hafa kvatt það fljótt, að­eins 30 tímum eftir að hann greindist smitaður, að synir hans fjórir hafi ekki haft tæki­færi til að kveðja hann á spítalanum. Hann ber starfs­fólki Landa­kots góða sögu, en það hafi veitt þeim tæki­færi til að kveðja föður sinn á Landa­koti fyrir kistu­lagninguna, sem hafi reynst þeim afar mikil­vægt, því í sjálfri kistu­lagningunni hafi verið búið að loka kistunni sakir að­stæðna.

Gauti, sem er gestur frétta­þáttarins 21 á Hring­braut í kvöld, kveðst gáttaður á því við hvaða að­stæður starfs­fólk heil­brigðis­kerfisins hér á landi starfi; skortur á mann­skap, að­búnaði, tækjum, við­haldi og upp­byggingu hafi staðið þessari lykil­þjónustu fyrir þrifum svo ára­tugum skipti; lang­varandi myglu­skemmdir og lé­leg eða engin loft­ræsting sé jafn­vel látin á­tölu­laust – og hann vill meina að kerfis­lægt fjár­sveltið í þessum geira megi rekja til stjórn­málanna sem séu sér­lega svifa­sein þegar að þessum lífs­nauð­syn­lega mála­flokki komi.

„Krafan er niður­skurður á niður­skurð ofan – og helst sú að lækka skatta enn frekar svo minna verði til sam­neyslunnar – og það þvert á marg­í­trekaðan vilja þjóðarinnar eins og endur­tekið hefur komið fram í skoðana­könnunum á síðustu árum.“

Krist­mann Eiðs­son, faðir Gauta, var 84 ára þegar hann lést, ný­kominn með pláss á hjúkrunar­heimili. Krist­mann var mikil­virkur og orð­hagur þýðandi alla sína starfs­ævi og þekktur á því sviði fyrir vinnu sína í sjón­varpi.