Náttúrulegar sápur úr hráefnum sem falla til

Náttúrulegar sápur sem bera heitið Baða Reykjavík er ávöxtur samstarfsverkefnis sem Bónus og Baða Reykjavík standa fyrir með það að leiðarljósi að framleiða umhverfisvænar og náttúrulegar gæða baðvörur á góðu verði sem innihalda hráefni sem fellur til í matvælaframreiðslu og í matvörubúðum og stuðla að samfélagslegri ábyrgð.

Baða Reykjavík er fyrst og fremst fjölskyldufyrirtæki í eigu hjónanna Erlu Gísladóttur og Ólafs Frímannssonar. Baða er nýtt vörumerki sem kom til út frá Uppsprettu, nýsköpunarsjóði Haga og hefur verið að vinna með URÐ á umhverfisvænan hátt en með Upprettu fengu hjónin tækifæri til að skapa nýtt vörumerki. Sjöfn Þórðar heimsækir Erlu á vinnustofuna þar sem gerð sápanna fer fram.

„Við fengum hér tækifæri til að nýta þá þekkingu sem við höfum í gegnum fyrirtækið okkar URÐ til að framleiða íslenska baðvörulínu fyrir dagvöruverslunina Bónus.“segir Erla en hún er einnig stofnandi og eigandi fyrirtækisins URÐ ásamt manni sínum sem er skapandi húð- og ilmvörufyrirtæki.

M&H Baða 1.jpeg

„Sápurnar okkar eru handgerðar eins og sápur voru gerðar í gamla daga með íslenskri repjuolíu. Sápurnar þurfa að taka sig í hillu í fjórar vikur áður en hægt er að nota þær. Þær innihalda engin aukaefni og aðeins hreinar ilmolíur,“segir Erla sem lærði sjálf að gera sápur á gamla mátann með því að afla sér þekkingar á netinu og prófa sig áfram með uppskriftum. „Við notum grænmeti og ávexti sem fellur til í verslunum, ýmist útlitsgölluð matavara, hefur orðið fyrir hnjaski eða komin fram yfir síðasta söludag.

Hér er á ferðinni verkefni sem er umhverfisvænt öðrum til eftirbreytni. „Baða er gríðarlega spennandi verkefni þar sem við höfum fengið aukið tækifæri til að sýna samfélagslega ábyrgð og sporna gegn matarsóun í samstarfi við Bónus og Haga,“segir Erla.

Missið ekki af áhugaverðri og skemmtilegri heimsókn Sjafnar til Erlu á vinnustofuna þar sem náttúrulegu sápurnar verða til í þættinum Matur og Heimili á Hringbraut í kvöld klukkan 19.00 og aftur klukkan 21.00.