Myndband dagsins: Fór yfir á eldrauðu ljósi og löggan gerði ekkert

Athyglisvert myndband birtist um helgina í hópnum Íslensk bílamyndbönd, en þar birtast allskonar myndbönd úr umferðinni.

Eins og kannski gefur að skilja er hegðun sumra ökumanna ekki alltaf til fyrirmyndar og rata myndbönd af slíku háttalagi jafnan inn á hópinn.

Myndbandið sem um ræðir var tekið á gatnamótum Suðurlandsbrautar og Kringlumýrarbrautar og sýnir hvar bifreið er ekið gegn rauðu ljósi. Ekki mátti miklu muna að árekstur yrði þar sem ökumaður á grænu ljósi var farinn af stað yfir gatnamótin þegar hinn bíllinn fór yfir á rauðu.

Það sem vekur einna mesta athygli er að lögreglubíll var á rauðu ljósi á móti og hefði að líkindum átt að stöðva þann sem fór yfir á rauðu og sekta hann. Það gerði lögreglan hins vegar ekki eins og sjá má.