Mynd dagsins: Þetta er ekki búið! – „Allt svo galið og öfgakennt í veðrinu um þessar mundir“

„Þó flestir fagni því að snjó hafi tekið upp að mestu upp á láglendi frá í gærkvöldi, erum við ekki alveg enn alveg sloppinn við veðrið. Sjálf lægðin sem ósköpunum olli í gær kom úr suðaustri, ásamt kalda loftinu sem barst í veg fyrir hana úr norðri. Hún var enn vaxandi þar til snemma í morgunn.“

Þannig hefst færsla á einum besta miðli hér á landi sem fjallar um veðurfar á Íslandi. Veður í mars og í apríl hefur verið óvenjuslæmt miðað við árstíma. Um þetta segir á Blika.is

„Kortið af Veðurstofuvefnum sýnir 953 hPa lægðarmiðju undan Reykjanesi kl. 6. Svo djúpar lægðir eru óvenjulegar við landið þegar komið er fram í apríl. Í morgun sýndist mér loftvog hafa farið hvað lægst á Keflavíkurflugvelli um 956 hPa. Fremur fátítt er að loftþrýstingur mælist undir 960 hPa í apríl og hefur ekki gerst í a.m.k. 10 ár (hugsanlega síðast 2011?).“

Þá segir þar enn fremur:

„En það er allt svo galið og öfgakennt í veðrinu um þessar mundir. Ekki er nema rúm vika að loftþrýstingur á landinu mælist sá hæsti í mars í meira en 100 ár.“

Þá segir á Blika.is að í dag muni herða vind og kólna og er spáin fyrir daginn í dag og á morgun eftirfarandi:

„Síðar í dag herðir á SV-áttinni, kólnar niður fyrir frostmark. Él verða á Hellisheiðinni seinnipartinn með 14-17 m/s. Í fyrramálið snjóföl að nýju, ekki þó mikil, yfirleitt suðvestan- og vestantil.“