Líflegar umræður hafa skapast innan Facebook hópsins Vertu á verði – eftirlit með verðlagi eftir að kona nokkur setti þar inn mynd sem hún tók eftir sundferð í Laugardalslaugina.
„Laugardalssundlaug selur kókómjólkina á spottprís,“ skrifar hún í athugasemd með færslunni.
Myndin er af 250 ml. fernu af Kókómjólk, en samkvæmt verðmiða í hillu kosta herlegheitin hvorki meira né minna en 330 krónur.
„Smyrja vel á og það virkilega vel. Liðið borgar með glöðu geði. Annars væri það ekki til sölu þarna á þessu verði,“ segir í einni athugasemdinni.
Þá bendir annar á lítraverðið miðað við uppgefið verð.
„1320 kr lítrinn.“
Þá bendir annar á að þetta verðlag er það sem gengur og gerist víða annars staðar.
„Svipað og í bakaríi og á fleiri stöðum.“
