Mynd dagsins: Ökumaður neitaði að færa sig – „Þegar ég hringdi í 112 brást hann hins vegar við“

Mynd dagsins að þessu sinni sýnir nokkuð algengan en býsna leiðinlegan sið hjá sumum ökumönnum sem taka upp á því að leggja eða stöðva bíla sína uppi á gangstéttum.

Myndina birti Martin Swift á Twitter og má sjá hana í færslunni hér að neðan.

„Hér er þjónustubifreið lagt á gangstétt svo öll gangandi og hjólandi á þessari vinsælu gönguleið þurfa að leggja leið sína út á götu. Bílstjórinn ætlaði fyrst ekki að gera neitt í þessu og sagði mér að hætta að skipta mér af. Þegar ég hrindi í 112 brást hann hins vegar við,“ segir í færslunni.

Martin bætir við að bílstjórinn hafi látið hann heyra það skýrt og greinilega að honum þætti hann óréttlátur.

„Hafði samband við starfsmannastjóra fyrirtækisins. Hún var afar þakklát fyrir ábendinguna og fullvissaði mig um að á þessu yrði tekið. Þetta hafi verið óásættanleg hegðun starfsmannsins og ekki í samræmi við gildi fyrirtækisins. Gefumst ekki upp í baráttunni fyrir betri borg.“