Mynd dagsins: „Mannvonskan í sinni ljótustu mynd“

Ljósmynd af úrbeinuðu lambi hefur vakið mikla athygli inn á Facebook-hópi sauðfjárbænda og velta margir því fyrir sér hvað hafi þarna átt sér stað.

„Hvaða dánarorsök kæmi fyrst upp í huga ykkar ef þið fynduð svona „lamb“ bak við dauðan stein – sjálfdautt, refur, maður eða ???“ spyr Gunnar Ríkarðsson sem birtir myndina.

„Engir bógar, læri eða innyfli sjáanleg á vettvangi en vambagor á víð og dreif og nýlegt eldstæði stutt frá,“ bætir hann við.

Ekki stendur á viðbrögðum við myndinni og veltir einn vöngum sínum yfir því hvort um hafi verið að ræða sauðaþjófa. Aðrir telja fullvíst að hér sé um að ræða mannanna verk.

„Þetta er eftir mann svo mikið er víst.“

„Mannvonskan í sinni ljótustu mynd. Hræðilegt að sjá,“ segir annar.

Vísir hefur eftir lögreglunni á Vesturlandi að þetta séu leifar af sex vikna gömlu lambi á Dritvík á Snæfellsnesi. Lögregla telur að það hafi verið drepið, úrbeinað og eldað á staðnum. Málið sé nú til rannsóknar og búið að upplýsa eiganda lambsins um málið.