Mynd dagsins: Katrín lokaði augunum þegar hún fékk sprautuna

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fékk bóluefni í Laugardalshöll nú skömmu eftir hádegið. Eins og sést á meðfylgjandi mynd var Katrín með sólgleraugu á höfðinu og í sumarlegum gulum stuttermabol þegar hún fékk bóluefnið.

Anton Brink, ljósmyndari Fréttablaðsins, tók meðfylgjandi myndir og virðist allt hafa gengið eins og í sögu. Það getur vissulega verið óþægilegt í stutta stund að finna þegar sprautan gengur inn í húðina og lokaði Katrín augunum eins og sést.

Í Morgunblaðinu í dag sagði Katrín það mikilvægt að bólusetningar gangi vel og að sem flestir verði bólusettir sem fyrst. Þá sagðist hún ekki hafa verulegar áhyggjur af því að færri sinni bólusetningarboðum nú en fyrst þegar hafist var handa við bólusetningar.

„Við höfum almennt verið að sjá mjög góða þátttöku og oft er verið að boða með skömmum fyrirvara, svo maður hefur skilning á því. En stóra verkefnið er það að hvetja fólk til þess að mæta. Það hefur auðvitað verið umræða um tiltekin bóluefni, en samt eru ótrúlega fá dæmi um að fólk hafi afþakkað bóluefni. Svo mér finnst fólk hafa kynnt sér þessi mál vel og treysta vísindunum,“ sagði hún meðal annars.