Mynd dagsins: Erlendir ferðamenn taka myndir af íslenskum ósóma

„Eftir margra ára valdasetu hafa Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir ekki lyft litla fingri til að stöðva hvalveiðar,“ segir Heiða Kristín Helgadóttir, framkvæmdastjóri Niceland Seafood og einn af stofnendum Besta flokksins og Bjartrar framtíðar, á Facebook-síðu sinni.

Heiða Kristín birtir þar mynd úr Hvalfirði þar sem sjá með starfsmenn Hvals gera að hval sem dreginn var á land fyrir helgi – sá fyrsti í sumar.

„Afrakstur dugleysis þeirra sem stjórnmálaleiðtoga liggur hér fyrir botni Hvalfjarðar og bíður þess að vera bútaður í sundur. Til vitnis er fjöldi erlendra ferðamanna sem standa hér í hífandi norðanátt og rigningarsudda að taka myndir af ósómanum til dreifingar á samfélagsmiðlum. Markaður fyrir afurðirnar er enginn en skaðinn ómældur fyrir land og þjóð. Sannkölluð þjóðarskömm,“ segir Heiða Kristín.