Mynd dagsins: Braggastrá við borgarstjóratorg

Glöggur vegfarandi átti leið framhjá Óðinstorgi í vikunni og rak þar augun í nýgróðursett strá sem vöktu strax ákveðin hughrif.

„Ég er enginn grasafræðingur en þau eru óneitanlega keimlík stráunum sem sköpuðu usla við Braggann í Nauthólsvík" segir vegfarandinn sem deildi myndinni með Hringbraut.

Þar vísar ljósmyndarinn til sérinnfluttra stráa frá Danmörku sem voru gróðursett fyrir utan braggann í Nauthólsvík. Stráin voru höfundarréttarvarin, eins og frægt varð, en kostnaður við þau nam 757 þúsund króna. Þrátt fyrir að verðið hafi verið lítill hluti af því rúmlega 400 milljón króna hneyksli sem Braggamálið varð þá urðu stráin engu að síður að krúnudjásni óráðsíunnar og spillingarinnar sem einkenndi málið.

„Hvort sem að þetta eru sömu strá eða ekki þá er að einhverju leyti táknrænt að Dagur borgarstjóri geti drukkið morgunkaffið sitt og virt fyrir sér þessi níðstrá á torginu sínu," segir ljósmyndarinn enn fremur en heimili borgarstjóra er alveg við torgið.

Framkvæmdirnar við Óðinstorg, sem nú er að mestu lokið, hafa verið umdeildar en kostnaður við þær var yfir 300 milljónir króna.