Mynd dagsins: Allt á kafi í snjó á Akureyri

22. janúar 2021
15:02
Fréttir & pistlar

„Svona er Akureyri í dag. Góða helgi kæru landsmenn nær og fjær. Förum varlega.“

Svo segir í stuttri færslu sem birtist á Facebook-síðunni Akureyri – miðbær í morgun. Eins og myndin ber með sér er vetrarlegt um að litast í höfuðstað Norðurlands enda hefur töluvert snjóað þar að undanförnu.

Eitthvað mun bæta í snjóinn norðan heiða og er gert ráð fyrir snjókomu eða éljum næsta sólarhringinn og gæti frost farið niður í fimm stig. Áfram verður kalt fyrir norðan næstu daga og eru bláar tölur á spákortum svo langt sem þau ná. Á þriðjudag og miðvikudag gæti frostið farið niður í tveggja stafa tölu á einhverjum stöðum fyrir norðan.

Á sama tíma eru nákvæmlega engin tíðindi af veðrinu á suðvesturhorni landsins. Þar er þurrt, hægur vindur og snjókorn hafa varla sést síðan fyrir jól. Það gæti þó breyst á þriðjudag en samkvæmt sjálfvirkri spá Veðurstofunnar gæti snjóað í höfuðborginni fyrri part dags á þriðjudag.

Svona er Akureyri í dag ❄️☃️💨 Góða helgi kæru landsmenn nær og fjær ❤️ Förum varlega ❤️

Posted by Akureyri - miðbær on Föstudagur, 22. janúar 2021