Mun sækjast eftir því að verða borgarstjóri

23. nóvember 2020
17:30
Fréttir & pistlar

Vigdís Haukssdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins segist halda ótrauð áfram störfum fyrir Miðflokkinn og afnám varaformannsembættis flokksins breyti engu um veru hennar eða stuðning við flokkinn.

Á aukalandsþingi Miðflokksins á laugardag, var lögum flokksins breytt og embætti varaformanns lagt niður. Laganefnd flokksins lagði til breytingarnar sem voru samþykktar með 85 prósentum greiddra atkvæða. Vigdís var ein í framboði til varaformanns, embættisins sem var lagt niður, en í staðinn er fjölgað í flokkstjórn úr fjórum í sex.

„Nei, alls ekki“, svarar Vigdís í þættinum 21 á Hringbraut í kvöld, aðspurð um hvort breytingarnar væru til þess gerðar að halda henni frá helstu völdum í flokknum. Hún ítrekar að mikill meirihluti flokksmanna hafi kosið þessa leið og hún trúi því að reynist hún ekki vel verði farið til baka til fyrra horfs. Hún vilji þó ekki taka sæti í stjórninni þar sem hún sé komin á þann stað í stjórnmálum að hún vilji vera í forystu en annars ekkert, verandi fyrrverandi þingmaður flokksins og formaður fjárlaganefndar. „Það heillar mig ekki að taka sæti í stjórninni því ég stefndi á það að verða varaformaður“.

Er ekki hreinlega of lítill biti fyrir þig núna sem stjórnmálamann til margra ára að setjast í staðinn í stjórn með fimm öðrum?

„Jú það má alveg túlka það þannig,“ svarar Vigdís en telur þó stöðu sína í flokknum „mjög sterka“ .

„Jú, jú, síminn hefur verið rauðglóandi,“ segir Vigdís og hún hafi heyrt í mörgum óánægðum flokksmönnum. Hún stefnir þó á að auka fylgi flokksins í borgarmálunum og ætlar að sækjast eftir því að verða næsti borgarstjóri: „Miðflokksmenn og aðrir eru mjög ánægðir með mín störf í borgarstjórn og ég stefni einbeitt á það að gefa kost á mér sem næsti borgarstjóri,“ bætir hún við og hún ætli sér að auka fylgi flokksins fyrir næstu borgarstjórnarkosningar á þarnæsta ári og fyrsta val í samstarfi sé Sjálfstæðisflokkurinn en hún útiloki ekki neina aðra flokka samt.

Gunnar Bragi Sveinsson þingflokksformaður mun starfa áfram sem varaformaður í vetur fram að Landsþingi flokksins og verður áfram staðgengill formannsins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.