Moska á Íslandi lánaði fé til Svíþjóðar – Fengu peninga frá Sádi-Arabíu

Félagið sem rekur íslensku stórmoskuna í Skógarhlíð lánaði múslimskum einkaskóla í Örebro í Svíþjóð háar fjárhæðir, greint er frá þessu í sænska ríkisútvarpinu í dag og á vef Stundarinnar.

Magnus Normark, greinandi hjá sænsku varnarmálastofnuninni, sagði við sænska ríkisútvarpið að þörf hafi verið fyrir peninga í samtökunum í bæði Íslandi og í Noregi sem fjárfestar frá Sádi-Arabíu hafi að hluta til komið til móts við. Skólinn í Örebro sé mjög fjársterkur. Lánið frá Íslandi hafi í raun verið til að flytja fjármagn til Íslands frá Svíþjóð.

Karim Azkari, framkvæmdastjóri íslensku stórmoskunnar, segir í samtali við Stundinaað Alsalamskólinn hafi verið að stækka og vantað fjármagn. Íslenska moskan hafi séð þeim fyrir fjármagni til fimm ára, höfuðstólinn eigi að greiða á næsta ári. Tengingin sé að einn af stjórnarmönnum íslensku moskunnar hafi einnig verið í stjórn sænska skólans.

„Þetta eru okkar peningar; peningar sem við notum til að fjármagna rekstur moskunnar,“ sagði Karim við Stundina.

„Í upphafi þá fengum við peninga frá ýmsum löndum af því múslimasamfélagið á Íslandi er ekki ríkt. Eitt af þessum löndum var Sádi-Arabíu. Við höfum líka fengið peninga frá íslenska ríkinu.“