Mosfellsbær kærir Reykjavíkurborg: Malbikunarstöð hefði í för með sér lyktarmengun

10. júlí 2020
17:01
Fréttir & pistlar

Mosfellsbær hefur kært áform Reykjavíkur um að reisa malbikunarstöð á Esjuvöllum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Bærinn telur að stöðin myndi hafa í för með sér neikvæð umhverfisleg og sjónræn áhrif auk lyktarmengunar fyrir íbúa Mosfellsbæjar.

„Það hvaða starfsemi fer fram á Esjumelum skiptir Mosfellinga miklu máli og að lágmarki þarf hún að samræmast gildandi aðalskipulagi. Deiliskipulagsbreyting sem færir svæðið frá því að teljast athafnasvæði yfir í iðnaðarsvæði myndi gera starfsemi tveggja malbikunarstöðva mögulega,“ segir bæjarstjórinn Haraldur Sverrisson í tilkynningu. „Malbikunarstöðvar teljast mengandi starfsemi auk þess að hafa í för með sér neikvæð umhverfisleg og sjónræn áhrif auk lyktarmengunar fyrir íbúa Mosfellsbæjar.“

Hann segir málið þó ekki aðeins snúast um malbikunarstöðina - áform borgarinnar séu hluti af stærra máli: „Vegalengdin milli Esjumela og byggðarinnar í Leirvogstungu er sambærileg við vegalengdina að Álfsnesi. Á Álfsnesi hafa sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu í góðri samvinnu unnið að stærsta einstaka umhverfisverkefni síðari tíma sem er gas- og jarðgerðarstöðin GAJA sem vinnur úr lífrænum úrgangi í lokuðu mannvirki.“

„Til þessa verkefnis hefur verið varið milljörðum en á sama tíma hefur Reykjavíkurborg úthlutað lóð þar sem fram mun fara moltugerð undir berum himni á Esjumelum, áform sem Mosfellsbær getur ekki sætt sig við enda fylgir moltugerð og annarri úrvinnslu lífræns úrgangs undir berum himni lyktarmengun sem ekki verður við unað. Mosfellsbær hefur ítrekað komið þessum áhyggjum á framfæri við Reykjavíkurborg, meðal annars á formlegum fundi með borgarstjóra, en án árangurs og því er farin sú leið að kæra borgina þó svo að hún sé ekki algeng í samskiptum sveitarfélaga,“ segir Haraldur.

Mosfellsbær telur að deiliskipulagsbreyting Reykjavíkurborgar sem heimilar malbikunarstöðina brjóti í bága við aðalskipulag borgarinnar.

„Samkvæmt skipulagslögum verður deiliskipulag að samræmast aðalskipulagi. Í aðalskipulagi Reykjavíkur fyrir Esjumela er skýrt kveðið á um að athafnasvæðið á Esjumelum sé ekki ætlað undir iðnaðarstarfsemi, í heild sinni eða að hluta, og grunnskilgreining svæðisins sé athafnasvæði. Hins vegar eru vissar heimildir fyrir iðnaðarstarfsemi á athafnasvæðinu á Esjumelum. Í aðalskipulaginu felst því ákveðið misræmi sem nauðsynlegt er að skera úr um,“ segir í tilkynningu Mosfellsbæjar.