Mörtu var vísað á dyr: „Marta er ekki einsdæmi“

Kettinum Mörtu var vísað á dyr árið 2019 og hefur verið á vergangi í borginni þangað til hún rataði í fellibúr samtakanna Villikatta núna í janúar. Kom í ljós að hún var örmerkt en ekki velkomin á sitt gamla heimili. Þar áður hafði hún einmitt verið í umsjá Villikatta.

Í tilkynningu frá félaginu segir að Marta sé ekkert einsdæmi, margir fái sér kött en yfirgefi þá um leið og eitthvað breytist.

„Sjálfboðaliðar Villikatta hafa fundið fyrir því undanfarið að á meðan villiköttum virðist hafa fækkað, þá hefur vergangsköttum sem virðast vanir mannfólki fjölgað í umsjá félagsins. Oftast er lítið vitað um ástæðurnar, en í sumum tilfellum bendir flest til þess að kettirnir hafi verið yfirgefnir eða úthýst. Marta er ekki einsdæmi,“ segir í tilkynningunni.

Minnir félagið á að nóg er til af úrræðum fyrir þá sem vilja losa sig við kött þegar upp koma vandamál.

„Við dæmum ekki fólk - en við gerum allt okkar besta fyrir kettina.“

Marta er í góðum höndum í dag: „Allar kisur eiga skilið að fá annað tækifæri. Marta dvelur nú í koti þar sem sjálfboðaliðar dekra hana og vinna í því að vekja aftur traust hennar á mannfólkinu - svo hún sé tilbúin þegar hennar tækifæri kemur.“