Morðingi meðal tekjuhæstu Íslendinganna í fyrra

Valur Lýðsson, sem hlaut fjórtán ára fangelsisdóm fyrir að bana bróður sínum árið 2018, var í hópi tekjuhæstu Íslendinganna í fyrra. Stundin fjallar um þetta í dag og greinir frá því að hann hafi haft 70 milljónir króna í tekjur á síðasta ári.

Bent er á það í umfjöllun Stundarinnar að Valur hafi barist gegn því að þurfa að greiða börnum bróður síns bætur. Þá er rætt við son Ragnars heitins, bróður Vals, sem segir að margir virðist tilbúnir að standa upp til að verja þá sem eru efnaðir í íslenskum samfélagi.

„Það er alveg augljóst að þegar þú ert sterkefnaður færðu mikla samúð og mikinn stuðning, alveg sama hvað þú gerir,“ segir Ingi Rafn, sonur Ragnars, við Stundina og bætir við að þetta skýri ýmislegt þegar kemur að framgöngu fólks sem tengist fjölskyldunni.

Ingi Rafn segir að Valur hafi tekið við búinu á Gýgjarhóli af móður sinni eftir að hún lést og selt mjólkurkvótann. Fjármunina sem hann fékk notaði hann meðal annars í hlutabréfaviðskipti.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Stundarinnar sem kom út í dag.