Milljarða fasteignabrask Sjálfstæðisflokksins vegna þéttingar byggðar

Í föstudagsútgáfu Morgunblaðsins er greint frá því að hafnar séu framkvæmdir við byggingu 48 íbúða og atvinnurekstrarhúsnæðis á lóðinni Háaleitisbraut 1 þar sem Valhöll stendur. Um 5.000 fermetra byggingar er að ræða. Sjálfstæðisflokkurinn á Valhöll og þar eru höfuðstöðvar flokksins.

Kunnáttumenn telja að kostnaður við þessa framkvæmd verði ekki undir tveimur milljörðum króna og að söluverð ætti að vera alla vega einum milljarði hærra. Flokkurinn er því kominn í arðvænlegt fasteignabrask vegna stefnu borgaryfirvalda um þéttingu byggðar.

Dagur borgarstjóri og félagar hans í meirihluta borgarstjórnar heimiluðu Sjálfstæðisflokknum að fara í umfangsmiklar framkvæmdir á lóð sinni á grundvelli stefnu meirihlutans um þéttingu byggðar í Reykjavík – sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið mótfallinn. Lítið heyrist nú frá fulltrúum flokksins um andstöðu við þéttingu byggðar!

Ekki kom neitt fram í frétt Morgunblaðsins hvernig flokkurinn ætlar að fjármagna þessa milljarða framkvæmd. Varla á flokkurinn digra sjóði til að standa undir svona risafjárfestingu.

Verða ríkisbankarnir látnir lána?

Munu ríkir flokksmenn hlaupa undir bagga eins og svo oft áður. Hverjir skyldu það þá vera og hverjir gætu haft hagsmuni af því að hjálpa Sjálfstæðisflokknum að græða heilan milljarð króna?

- Ólafur Arnarson.