Miklar veður­breytingar í kortunum: „Snjóar stað­bundið all­mikið“

Sam­kvæmt Veður­stofunni má búast við norð­lægri átt 3- 13 metrar á sekúndu í dag og hvössum vind­strengjum suð­austan­lands. Víða verður létt­skýjað en él austan­lands með snjó­komu seint í kvöld.

Á morgun verður aust­lægari átt. Él verða norðan til fyrri­partinn en það mun einnig snjóa suð­vestan­til annað kvöld.

Frost verður á bilinu 3 til 16 stig, kaldast í inn­sveitum norð­austan­lands en sums staðar frost­laust syðst í dag. Mildara veður er í kortunum á morgun.

Í hug­leiðingum veður­fræðings kemur fram að í dag verður r á­þekkt veður og verið hefur nema að há­marks­hiti dagsins getur sums staðar komist yfir frost­mark, einkum sunnan til á landinu.

Út­lit er fyrir að úr­komu­bakki muni leggjast yfir vestan­vert landið seint á morgun og getur snjóað stað­bundið all­mikið.

Sam­kvæmt veður­fræðing eru líkur eá að þessi snjó­komu­bakki verði við­loðandi vestan­vert landið fram eftir laugar­degi, en færist síðan yfir á austur hluta landsins. „Þannig að það lítur út fyrir að vetur konungur minni einnig á sig um vestan­vert landið eftir langan þurr­viðrisk­afla,“ segir á vef Veður­stofunnar.