Miklar umbúðir - en hvernig verður innihaldið?

20. mars 2020
21:46
Fréttir & pistlar

Á morgun hyggst ríkisstjórnin kynna hluta þeirra aðgerða sem ætlunin er að gripið verði til vegna þeirra hörmunga sem nú ganga yfir efnahagslíf landsmanna.

Tilkynnt hefur verið að kynningin muni fara fram í Hörpu. Ráðherrarnir sem koma fram virðast ekki hafa staðist þá freistingu að búa til leikrit vegna þessa atburðar.

Þetta er það sem margir hafa óttast. Freisting ráðherrana til að upphefja sjálfa sig með einhverjum sviðsetningum verður smekkvísi yfirsterkari.

Þjóðin hefur engan áhuga á einhverju pólitísku leikriti núna. Kjósendur vilja sjá undanbragðalausar alvöruaðgerðir til að mæta aðsteðjandi vanda. Fólk vill ósvikið innihald en hefur engan áhuga á umbúðum sem hugsaðar eru einstaka ráðherrum til framdráttar.

Ríkisstjórnin hét samráði við stjórnarandstöðuna til að ná sem breiðastri samstöðu. Það loforð hefur þegar verið svikið sem lofar ekki góðu um framhaldið.

Við verðum samt að vona að morgundagurinn beri í skauti sér ríkulegt innihald en ekki bara glansandi umbúðir.

Kjósendur munu sjá í gegnum allar tilraunir til pólitískrar sjálfsupphafningar.