Mikilvæg áminning Sævars á 17. júní – Ekki kaupa þetta

Sævar Helgi Bragason, oft kallaður Stjörnu-Sævar, minnir foreldra, ömmur og afa á það að kaupa ekki helíumblöðrur þó að í dag sé 17. júní.

Sævar endurbirtir á Facebook-síðu sinni tíst frá því í fyrra þar sem hann benti á helíum væri takmörkuð auðlind sem við megum alls ekki sóa. Benti hann á að helíum væri til dæmis ómissandi í læknisfræði. Það er ekki það eina.

„Blaðran er úr slitsterku plastefni sem sundrast í plastrusl sem brotnar seint og illa niður í umhverfinu og dýr halda að sé fæða,“ sagði hann. Í færslu sinni bætti hann svo við: „Veitum börnum sanna ánægju en ekki rusl á 17. júní, sem og alla aðra daga.“

Helíum er frum­efni, svo­kölluð eðal­l­oft­tegund, og gerir það að verkum að blöðrur sem fylltar eru með efninu svífa upp í loftið sé þeim sleppt. Þá vekur það jafnan kátínu þegar glaum­gosar anda efninu að sér.