Mikið af jólaskrauti rænt í Langholtshverfi: „Hver bauð eiginlega Grinch í hverfið okkar!“

Þónokkru magni af jólaskrauti hefur verið stolið úr görðum í Langholtshverfi á síðustu dögum, hefur það valdið töluverðri reiði meðal íbúa.

Íbúi á Langholtsvegi segir að aðfaranótt mánudags hafi öllum fjórum jólaseríum fyrir utan húsið verið stolið.

„Geri mér engar vonir um að fá þær tilbaka en mæli með að þið festið ykkar seríur vel niður og hafið augun opin. Hrikalega lélegt,“ segir íbúinn.

Margir kannast við þetta. „Maðurinn minn skreytti heima hjá okkur og gerði á grindverkin falleg dýr og margt fleira fyrir mörgum árum þá var einhver sem klippti helminginn af skrautinu. Við skreytum bara heima hjá okkur,“ sagði Ágústa.

Margir lýsa yfir reiði sinni, þar á meðal Eydís nokkur sem spyr: „Hver bauð eiginlega Grinch í hverfið okkar!“ Og vísar þar í Trölla sem stal jólunum.

Daginn eftir birti Sigurbjörg mynd af jólahreindýrum sem fengu að láta ljós sitt skína í garðinum í 12 tíma áður en þau hurfu:

„Þau voru líka í fyrra og við fengum að njóta þeirra þá. Að hugsa sér að svona hlutum sé stolið. Allir í húsinu sakna þeirra og örugglega líka nágrannar okkar.“

Íbúinn svaraði: „Ég tilkynnti lögreglu um seríustuldinn hjá okkur. Myndi gera það líka. Við þurfum eitthvað að fara að efla nágrannavörsluna hjá okkur.“

Jólaskrautið gleður marga, þar á meðal Kristínu sem segir:

„Æ, leitt að heyra, ég gladdist einmitt í hvert sinn sem ég gekk framhjá og þessi hreindýr glöddu líka ömmustelpuna mína, þegar við skoðuðum jólaskrautið í fyrra í hverfinu.“