Mikael Torfason: „Ég er saklaus!“ – Fékk aldrei far með einkaþotu Jóns Ásgeirs

Mikael Torfason, rithöfundur og fyrrverandi fjölmiðlamaður, segist aldrei hafa fengið far með einkaþotu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Þetta segir hann í færslu á Facebook.

Í nýrri bók Jóns Ásgeirs, Málsvörn, sem rituð er af Einari Kárasyni heldur hann því fram að Gunnar Smári hafi helst ekki nennt til Danmerkur nema að fá undir sig einkaþotu. Var Jón Ásgeir þá að vísa til tímans í Danmörku þegar undirbúningur að stofnun Nyhedsavisen stóð sem hæst, en blaðið var rekið á árunum 2006-2008.

Sjá einnig: Jón Ásgeir: Gunnar Smári nennti ekki til Kaup­manna­hafnar nema að fá undir sig einka­þotu

Gunnar Smári hefur að vísu svarað fyrir þessi orð. Það gerði hann í pistli á Vísi í dag og vandaði hann Einari Kárasyni, sem jafnframt er varaþingmaður Samfylkingarinnar, ekki kveðjurnar. Sagði Gunnar Smári að Einar væri einn af þeim Samfylkingarmönnum sem ætíð eru fremstir í árásum á sósíalismann. Um einkaþotuskutlið sagði hann:

„Það er nefnilega svo aumt, og aumara en ég trúi að Jón sé orðinn, að bjóða manni far árið 2006 en segja svo að sá hafi ekki nennt að hreyfa sig nema fá undir sig drossíur og einkaþotur.“

Mikael hefur væntanlega nokkuð gaman af þessum orðaskiptum, en hann var ritstjóri DV á árunum 2003 til 2006 og var svo aðalritstjóri Birtíngs í kjölfarið. Hann segir í færslu sinni:

„Að gefnu tilefni: Ég er saklaus! Ég fékk aldrei far með þessari einkaþotu Jóns Ásgeirs. Ég hefði þegið far því ég var í útrásinni með þessum vinum mínum á sínum tíma. En nei, ég var látinn þvælast á Saga Class með Helga Hermanns og Sverri Agnarssyni. Síðar vorum við reyndar látnir kaupa miða með Iceland Express. Þá var farið að halla undan fæti.“