Miður sín vegna útstrikana á Elínu: „Þetta kom okkur mjög á óvart“

„Þetta kom okkur mjög á óvart,“ segir Sigurjón Andrésson, efsti maður T-listans í Flóahreppi, í samtali við Fréttablaðið í dag.

Listinn fékk tvo menn kjörna í kosningunum á laugardag, Sigurjón og Elínu Höskuldsdóttur, en þegar rýnt var í útstrikanir kom á daginn að þriðjungur kjósenda T-listans, 38 kjósendur af 129, höfðu strikað yfir nafn Elínar. Hún færðist því niður um eitt sæti og náði ekki kjöri sem fulltrúi.

Í frétt Fréttablaðsins í dag kemur fram að margir séu sagðir miður sín í héraðinu vegna niðurstöðunnar og segist Sigurjón ekki hafa neina skýringu á þessu.

Árni Eiríksson, sem vann meirihluta í sveitarfélaginu fyrir hinn listann í Flóahreppi sem bauð sig fram, segir við Fréttablaðið:

„Það eru margir sem hafa haldið að útstrikanir skiptu litlu máli. En það er augljóslega hægt að senda mjög sterk skilaboð eins og í þessu tilviki.“

Nánar má lesa um málið á vef Fréttablaðsins.