Miður geðsleg sníkjudýr að festast í sessi hér á landi

„Þetta hefur greinilega verið hér í nokkur ár,“ segir Karl Skírnisson, sníkjudýrafræðingur hjá Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum, í samtali við Fréttablaðið í dag.

Svo virðist sem miður geðsleg sníkjudýr séu að festast í sessi hér á landi en skotveiðimenn hafa fundið áberandi vefjaþolhjúpa í bringukjöti andfugla sem þeir hafa skotið. Um er að ræða vefjaþolhjúpa einfrumu sníkjudýrs.

Í umfjöllun Fréttablaðsins í dag kemur fram að erlendis kalli menn þetta gjarnan hrísgrjónabrjóst enda minnir hjúpurinn á ósoðin hrísgrjón. Hjúpurinn liggur gjarnan í eða rétt undir yfirborði bringuvöðvanna.

Frumudýrið sem um ræðir nefnist holdmæra, eða Sarcocystis, á latínu og segir Karl að holdmærur finnist í öllum grasbítum á Íslandi. Vefjaþolhjúparnir verði þó sjaldnast svona áberandi nema í andfuglum.

Karl segir að holdmærur hafi sennilega ekki nein heilsufarsleg áhrif á fuglana og að sníkjudýrið fari ekki yfir í fólk. Karli áskotnaðist sýktur fugl fyrir ekki löngu síðan og hefur hann síðan spurst fyrir um þetta meðal skotveiðimanna og fengið nokkur viðbrögð.

„Mjög sennilega hafa fuglarnir smitast erlendis, á vetrarstöðvunum sem eru gjarnan í Vestur-Evrópu,“ segir Karl í Fréttablaðinu en þar er þekkt að lokahýsillinn í lífsferli tegundarinnar sem hér á í hlut sé rauðrefur.

Nánar í Fréttablaðinu.