Miðflokksmenn leiti róta siðferðisins í gömlum kennslubókum um kristinfræði

Sif Sigmarsdóttir, rithöfundur og pistlahöfundur hjá Fréttablaðinu, segir Miðflokkinn jafnlíklegan til að finna undirstöðu siðferðisins og franskur aðalsmaður með tveggja tinda gaffal er að komast niður á botn baunaskálar. Frumvarp Miðflokksins sé gott innlegg inn í gafflaumræðuna svokölluðu frá árinu 1007.

Miðflokkurinn reynir enn og aftur að koma frumvarpi í gegn hjá Alingi um að auka kristinfræðikennslu í grunnskólum. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem flokkurinn leggur þetta til líkt og má sjá í fréttinni hér fyrir neðan.

Sjá einnig: Birgir vill að kristninni verði gefið meira vægi í grunn­skólum

Sif tekur kristinfræðimálið fyrir í leiðara sínum í Helgarblaði Fréttablaðsins í dag í samhengi við hin ýmsu siðferðismál í sögu Evrópu.

Þar reifar hún sögu gaffalsins, allt frá því þegar Feneyingar litu á pláguna sem refsing himnaföður fyrir gafflanotkun Maríu Argyropoulina, sem borðaði mat með gaffla úr gulli þegar Feneyingar voru vanir að borða með höndunum. Gaffallinn var ekki tekinn í sátt fyrr en fjögur hundruð árum síðar.

Sif bendir á að hugmyndir mannsins séu í stöðugri þróun, líkt og má sjá í gafflaumræðunni og þróun áhaldsins svo franskt aðalfólk gæti skóflað grænum baunum í sína fágaða munna. Kristin gildi séu ekki annað en mannleg gildi.

„Miðflokkurinn er jafnlíklegur til að finna undirstöðu siðferðisins og franskur aðalsmaður með tveggja tinda gaffal er að komast niður á botn baunaskálar. Af fortíðarþrá leita Miðflokksmenn róta siðferðisins í kennslubókum um kristinfræði frá eigin grunnskólagöngu. En það sendir enginn skip út á ballarhaf með kort þar sem jörðin er teiknuð flöt. Það dytti fáum í hug að halda því fram að kórónaveirufaraldurinn sem nú ríður yfir heimsbyggðina stafi af of mikilli gafflanotkun þótt það hafi verið ályktunin sem Feneyingar drógu árið 1007.“