„Mér er nokk sama um móðgunargirni umrædds karls“

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, telur umræðuna um Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar og Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra vera á villigötum.

„Mér skilst að samfélagsumræðan í dag snúist um það hvort nafntogaður karl sé móðgaður eða ekki. Mér er nokk sama um móðgunargirni umrædds karls, en það er enginn einstaklingur svo merkilegur að móðganir viðkomandi eigi að vera helsta umræðuefni heils samfélags,“ segir Kolbeinn í færslu á Facebook-síðu sinni.

Mikið hefur verið rætt um Kastljósþátt gærkvöldsins þar sem óánægður Kári lék á als oddi og líkti Svandísi við hrokafulla tíu ára stelpu.

Þingmaðurinn segist ekki nenna að fást við slíkt tal en hrósar flokksystur sinni og segir hana hafa staðið sig vel í því ástandi sem hafi ríkt hér á landi síðustu mánuði.

„Ekki þarf hún að trana sér fram, heldur gefur fagfólkinu sviðið. Verst að ekki sýna allir sem taka þátt í umræðunni af sér sömu fagmennsku og hún.“