Mennirnir báðir íslenskir og um tvítugt: Vopnið ekki fundið

Karlmaður um tvítugt hefur nú verið úrskurðaður í fimm daga gæsluvarðhald í tengslum við rannsókn á stunguárás í miðbæ Reykjavíkur í nótt en annar karlmaður um tvítugt liggur nú þungt haldinn á gjörgæslu eftir að hann var stunginn í kviðinn. Báðir mennirnir eru íslenskir.

Árásin var tilkynnt til lögreglu á öðrum tímanum í nótt fyrir utan veitingastaðinn Fjallkonuna við Ingólfstorg en meintur árásarmaður var handtekinn í heimahúsi í Kópavogi í morgun.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, greindi frá því í kvöldfréttum Stöðvar 2 að maðurinn sem varð fyrir árásinni sé í lífshættu en verið er að rannsaka hvernig mennirnir tengjast.

Ekki er talið málið tengist skipulagðri brotastarfsemi.

Þá er enn leitað að vopninu sem var notað við árásina en lögregla lagði hald á hníf í miðbænum sem ekki er vitað hvort tengist árásinni.

Málið er nú til rannsóknar og segir lögregla að rannsókninni miði vel.