Meidd æra Lúðvíks fyrir dómstóla

Markaður Fréttablaðsins hefur greint frá því að Lúðvík Bergvinsson, lögmaður og fyrrum þingmaður Samfylkingar, hafi stefnt ritstjóra Viðskiptablaðsins vegna meintra ærumeiðinga þegar fjallað var um hlutverk Lúðvíks sem „kunnáttumanns“ á kostnað Festi vegna sameiningar N-1 og Festi haustið 2018.

Blaðið fjallaði um þóknanir Lúðvíks í pistlinum Óðni með léttum en beittum hætti. Oftast taka menn skotum Óðins með brosi á vör nema þau komi við einhver kaun, þá eiga menn það til að reiðast og láta skapið hlaupa með sig í gönur. Það hefur greinulega hent Lúðvík sem virðist ekki hafa húmor fyrir hálfkæringi blaðamanna Viðskiptablaðsins.

Hann hefur meira að segja fyrir því að verðleggja æru sína á þrjár milljónir króna. Svo skemmtilega vill til að það er svipuð fjárhæð og Lúðvík hafði haft í tekjur á mánuði að meðaltali frá Festi fyrir meint störf „kunnáttumanns“ frá upphafi verksins seint á árinu 2018 til ársloka 2019.

Fram hefur komið að meira en fjörtíu milljónir króna hafa runnið til Lúðvíks á tímabilinu eða að meðaltali þrjár milljónir á mánuði. Algengar þóknanir sérfræðinga eru um þrjátíu þúsund á klukkutímann. Samkvæmt því hefur Lúðvík varið um 100 tímum á mánuði að meðaltali í störf sín fyrir Festi.

Nú mun þetta mál koma fyrir dómstóla. Þá verður Lúðvík væntanlega gert að greina frá þeim störfum sem liggja að baki þessum firnaháu greiðslum. Það verður forvitnilegt því menn hafa átt í basli með að átta sig á því hvert hlutverk „kunnáttumanns“ af þessu tagi er og í hverju sérþekkingin er fólgin. Ekki þarf að gera ráð fyrir öðru en að blaðið taki til kraftmikilla varna og spyrji fjölda spurninga.

Að loknum málaferlum verðum við væntanlega margs vísari um hlutverk „kunnáttumanns“ og hvernig unnt er að nota 100 tíma á mánuði til að sinna því.

Þá verður einnig búið að verðleggja meidda æru Lúðvíks Bergvinssonar!