Með hverjum ætlar Logi að mynda ríkisstjórn?

2. október 2020
16:07
Fréttir & pistlar

Logi Einarsson, þingmaður og formaður Samfylkingarinnar, segir nú við öll tækifæri að röðin sé komin að Samfylkingunni að mynda ríkisstjórn vinstri flokka í staðinn fyrir núverandi hægri stjórn.

Í fyrsta lagi er nú við völd vinstri stjórn undir forsæti sósíalistans Katrínar Jakobsdóttur. Ekki hægri stjórn eins og Logi virðist halda.

Í öðru lagi má velta því fyrir sér hvort Logi sé nægilega sterkur og reyndur leiðtogi til að leiða ríkisstjórn.

Og í þriðja lagi vaknar spurning um það með hvaða flokkum hann gæti myndað meirihlutastjórn.

Skoðum nýjustu skoðanakönnunina sem Fréttablaðið birti í vikunni: Þar mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 16 þingmenn, Samfylking 13 menn, Píratar 10, Viðreisn með 7 þingmenn, Vinstri græn 6, Framsókn einnig með 6 og Miðflokkur 5 menn. Sósíalistaflokkur Gunnars Smára og Flokkur fólksins fá engan kjörinn á Alþingi.

Fari kosningarnar svona næði vinstri stjórn Loga og VG einungis 19 þingmönnum en ekki 32 eins og þarf að lágmarki til myndunar meirihlutastjórnar. Píratar telja sig ekki vera vinstri flokk, meira bara hvað sem er. Verði þeir fengnir til viðbótar, þá væri tala þingmanna orðin 29 sem nægir ekki heldur.

Hægri flokkarnir eru Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, samtals með 22 þingmenn samkvæmt umræddri könnun. Þó þeir tækju öfgahægriflokkinn með, 5 þingmenn Miðflokksins, þá dygði það heldur ekki.

Viðreisn þyrfti þá að bætast við með 7 þingmenn til að starfhæfur meirihluti næðist.

Hætt er við að mjög mikið þurfi að breytast fram að kosningum til að draumur Loga verði nærri einhverjum veruleika. Helst þá það að Sósíalistaflokkurinn og Flokkur fólksins kæmu fólki á þing. Það yrði féleg ríkisstjórn með Samfylkingu, VG, FF, Sósíalistaflokknum og Pírötum!

Haldi Logi Einarsson áfram að teyma Samfylkinguna langt til vinstri, tryggir hann flokki sínum áframhaldandi áhrifaleysi á Alþingi.