Matthías segir að skóla­stjórn­endur MH hafa skitið upp á bak: „Ropa upp úr sér því­líkri van­virðingu“

Hatarinn Matthías Tryggvi Haralds­son hefur tjáð sig um MeT­oo byltinguna sem er að eiga sér stað innan veggja Mennta­skólans við Hamra­hlíð í pistli á Vísi. Hann segir að skóla­stjórn­endur hafi skitið upp á bak og kallar eftir að þol­endur verði beðnir af­sökunar.

„Þessa dagana ólgar bylting innan veggja Mennta­skólans við Hamra­hlið, þar sem ég á systur og mág­konu meðal nem­enda, þar sem barns­móðir mín og unnusta, hún Bryn­hildur mín, var í námi þegar henni var nauðgað fyrir meira en tíu árum,“ segir Matthías.

Hann segir að byltingin sé mikil­væg og að það eigi að hlusta á nem­endur sem keyra hana á­fram af hug­rekki og rétt­sýni.

„Krafan er skýr og há­vær um að stjórn­endur skólans stigi fast til jarðar og standi með þol­endum. Þess vegna eru von­brigðin, sem ég finn í dag, ó­lýsandi.“

„Þeir heita Steinn Jóhanns­son, rektor skólans, og Pálmi Magnús­son, sem gegnir starfi á­fanga­stjóra, sem hafa gjör­sam­lega skitið upp á bak í þessum málum. Klúðrið hefur ber­sýni­lega gengið á sam­fleytt í meira en tíu ár svo­leiðis að van­hæfni þeirra berg­málar í sárs­auka­þrungnum sögum fjölda þol­enda, þar á meðal Bryn­hildar minnar, Elísa­betar vin­konu sem tók sitt eigið líf og enn í dag í mót­mælum nem­enda,“ segir Matthías.

Hann segir að Steinn og Pálmi hafi ropað upp úr sér því­líka van­virðingu þegar þeir kölluðu löngu tíma­bæra MeT­oo-byltingu mennta­skóla­nema „hysteríu.“

„Slík um­mæli af­hjúpa heilan heim úr­eltra við­horfa og sýna að þeir eiga ekkert erindi í þessa við­kvæmu um­ræðu, hvað þá að vinna með ung­mennum. Gleymum því ekki að meira en 70 prósent þeirra sem leita til Stíga­móta urðu fyrst fyrir of­beldi á mennta­skóla­aldri, ef ekki fyrr. Finnst Pálma 70 prósent þeirra sem leita til Stíga­móta vera hysterísk?,“ segir Matthías.

Hann segir að stjórn­endur skólans hafi ekkert gert til þess að svara þessari spurningu og biður hann þá um að girða sig í brók.

„Þeir neita að tjá sig um þetta opin­ber­lega og snubbótt yfir­lýsing um verk­ferla er enginn sigur. Þá gat Steinn rektor varla nefnt orðið kyn­ferðis­of­beldi á nafn á skóla­fundinum, sem átti að vera sönnun þeirra um verk­ferla og fag­mennsku. Þess í stað var rektorinn að sögn á­reiðan­legra heimildar­manna minna „eins og kúkur“. Skóla­stjórn­endur MH, girðið ykkur í brók, biðjið þol­endur af­sökunar eins og þið meinið það eða víkið úr starfi,“ segir Matthías.

Fleiri fréttir