Margrét: „Þetta fólk dregur úr mér lífslöngunina“

„Ég veit fátt leiðinlegra en neikvætt fólk – fólk sem alltaf sér glasið hálftómt og er farið að tuða inni á kaffistofu um leið og það mætir. Þetta fólk dregur einfaldlega úr mér lífslöngunina og á COVID-tímum er fátt mikilvægara á eftir sóttvörnum en að passa upp á orkustigið til að þreyja heimsfaraldur.“

Þetta segir Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri Pfaff, í bakþönkum Fréttablaðsins um helgina. Þar skrifar Margrét um COVID-19 faraldurinn og bendir á að undanfarið hafi fámennur hópur gerst hávær og fundist allt ganga of hægt og bent á að hömlur á daglegt líf væru of miklar.

Ljóst er að þegar COVID-19 er annars vegar er stutt á milli hláturs og gráts. Það sást ágætlega um helgina þegar á fjórða tug einstaklinga greindist með veiruna innanlands – nokkrum dögum eftir að ráðist var í tilslakanir.

Margrét segir að það hafi verið einkar ánægjulegt að mikil samstaða virðist ríkja um sóttvarnaaðgerðir yfirvalda, mælist stuðningurinn um 95% samkvæmt síðustu tölum.

„Það þýðir þó ekki að við séum ekki öll orðin hundleið – en við áttum okkur jafnframt á því að hlutirnir ganga ekkert hraðar með því að heimta óraunhæfar úrbætur. Við erum í miðjum heimsfaraldri og þá er hollt að setja hlutina í samhengi.“

Margrét segir að Íslendingar séu um margt í öfundsverðri stöðu miðað við stærstan hluta heimsins.

„Þegar við berum saman daglegt líf hér og víða um heim vildu margir skipta við okkur á núll einni. Á þeirra mælikvarða erum við Íslendingar á lúxussiglingu í gegnum lífið.“

Hún bendir á að samkvæmt bólusetningardagatali stjórnvalda verði búið að bólusetja megnið af þjóðinni um mitt sumar. Á sama tíma sé uppi gríðarlegt ójafnvægi þegar kemur að bólusetningum víða um heim. Í ríku löndunum sé búið að bólusetja allt að 25% landsmanna en í þróunarlöndunum er hlutfallið lægra, 0,2% jafnvel.

„Veruleikinn sem stærstur hluti mannkyns býr við er allur annar en okkar – þar grasserar COVID, heilbrigðisþjónusta er oft í skötulíki og biðin eftir bóluefnum er ekki mæld í vikum heldur árum. Höldum því út með jákvæðnina að leiðarljósi og áttum okkur á og þökkum daglega fyrir þá forréttindastöðu sem við erum í.“