Margrét Pála: „Allt í einu hringdi bara enginn í mig lengur“ - Ríkisstjórnin ætti að biðjast afsökunar

„Mér þætti á­gætt að ríkis­stjórn Ís­lands myndi biðjast af­sökunar á því varnar­leysi og skorti á vernd og virðingu sem við bjuggum við á þessum tímam“ segir Margrét Pála Ólafs­dóttir, stofnandi Hjalla­stefnunnar, í nýjasta hlað­varps­þætti Sölva Tryggva­sonar.

Margrét, sem hefur um ára­bil rutt veginn fyrir nýjar leiðir í menntun barna, var ein fyrsta opin­bera lesbían á Ís­landi og segir hún meðal annars í þættinum frá því hvað sam­kyn­hneigt fólk mátti þola á Ís­landi á þessum tíma:

„Það var Breiða­vík víðar en fyrir vestan. Hommarnir voru lamdir niðri í mið­bæ án þess að nokkuð væri gert í því. „Gay-fólk var missandi at­vinnu og hús­næði og hent út af veitinga­stöðum og það var hvergi nein verndar­lög­gjöf eða réttindi fram til 1996. Ekkert sem viður­kenndi til­vist okkar, nema að lág­marks­aldur til kyn­lífs var hærri hjá sam­kyn­hneigðum en öðrum. En að við værum viður­kennd eins og aðrir þegnar gerist í raun ekki fyrr en ’96,“ segir Margrét Pála meðal annars og segir að vel færi á því að ríkis­stjórnin myndi biðjast af­sökunar.

„Þjóð­kirkjan er svo önnur opin­ber stofnun sem særði okkur djúpt. Það voru ofsa­trúar­hópar sem réðust á okkur og lömdu okkur með biblíunni og svo voru hópar sem stunduðu það að lemja hommana niðri í bæ og karl­fjandar sem réðust að mér og vildu kenna mér hvernig raun­veru­legir karl­menn gætu læknað eina lesbíu. En allt þetta má svo sem skilja, en þegar heil stofnun sem á ekki að þjóna neinu nema kær­leikanum fór sömu leið, það var erfiðara að kyngja því og kirkjan á í raun enn eftir að gera þessi mál upp heiðar­lega.“

Þá segir Margrét erfitt fyrir þá sem hafa ekki upp­lifað hluti af þessu tagi að skilja til­finninguna sem því fylgir að fólk hætti allt í einu að hlusta á þig og taka mark á þér:

„Ég stefndi á pólitík í gamla daga þegar ég var í Al­þýðu­banda­laginu, en svo kom ég úr felum og allt í einu hringdi bara enginn í mig lengur…..Þetta er upp­lifun sem er erfitt að lýsa, af því að hún er svo ó­trú­leg. Þú talar við fólk og finnur að allt í einu eru allir hættir að hlusta á þig. Ég hafði verið afar vin­sæl og taldi að pólítík væri leiðin til að breyta heiminum, en þetta var bara mjög ein­falt. Ég átti sæti í fjölda nefnda og var í fram­kvæmda­stjórn flokksins, en skyndi­lega var bara hætt að hringja og mér var ekki boðið að taka þátt í neinu lengur. Það var einn maður sem þorði að segja þetta beint við mig, að vísu var hann fullur: „Það er eins gott að þú ert hins­segin, af því að þá þarf ég ekki að hafa á­hyggjur af stöðunni minni.“ Fyrir þá sem hafa ekki prófað þetta er erfitt að út­skýra hvernig það er að verða „per­sona non grada“.

Þrátt fyrir þetta segir Margrét að það hafi aldrei verið val­kostur fyrir sig að koma ekki út úr skápnum:

„Þegar ég finn minn sann­leika, þá bara segi ég hann. Þannig að það var aldrei val fyrir mig að koma ekki út úr skápnum. Þegar ég átta mig á því 26 ára gömul að ég er sam­kyn­hneigð fyllist ég mikilli skelfingu gagn­vart um­hverfinu og gagn­vart minnar fram­tíðar, en það leið ekki vika þar til ég var búin að biðja manninn minn um skilnað. Þegar ég kyssti í fyrsta sinn konu, þá skildi ég líf mitt á augna­bliki. En það tók tíma að koma að fullu út úr skápnum. Ég var bæði hrædd um að missa for­ræði yfir dóttur minni og ég var í við­kvæmu starfi og það voru líka góðar líkur á að ég myndi tapa vinnunni, þannig að ég fyrir­gef mér það alveg að það hafi tekið tíma að koma alveg úr felum.“

Margrét hefur sem fyrr segir rutt veginn fyrir nýjar leiðir í menntun í ára­raðir og þúsundir á­nægðra for­eldra hafa nú sent börn sín í skóla Hjalla­stefnunnar sem Margrét stofnaði. Í þættinum ræða Sölvi og Margrét um það hvernig öll hennar tæki­færi voru tekin af henni á einum degi vegna for­dóma á tímum sem voru allt aðrir en í dag. Þau fara jafn­framt yfir mikil­vægi þess að hrista upp í mennta­kerfinu, hlusta á börn og þora að fara gegn straumnum.

Þáttinn í heild má sjá hér að neðan: