„Ef ég gat komist í gegnum heilan dag án þess að borða fannst mér það sigur“

Margrét Gnarr, fyrr­verandi heims­meistari í módelfit­ness, opnar sig um átraskanir sem hún hefur glímt við frá ungum aldri en í við­tali hjá Frétta­blaðinu segist hún hafa þróað með sér átraskanir frá því að hún var að­eins sex ára gömul.

Að sögn Margrétar reyndust fyrstu árin í skóla henni erfið og batnaði það ekki þegar hún fór á kyn­þroska­skeiðið og bætti að­eins á sig. Hún minnist þess þegar hún fór í vigtun hjá skóla­hjúkrunar­fræðingi þegar hún var fjór­tán ára og aðrar stelpur í hópnum hafi flissað þegar hjúkrunar­fræðingurinn sagði; „Hvað er að sjá þig stelpa – veistu ekki að þú ert yfir kjör­þyngd?“

Fann taekwondo og grenntist


„Ég skammaðist mín gríðar­lega eftir þetta og hætti eigin­lega að mæta í skólann. Ég hafði æft list­dans á skautum af metnaði og þó mér þætti gaman fannst mér ég ekki eins góð og hinar stelpurnar, fannst ég ekki verðug þess að vera í kringum þær,“ segir Margrét.

Síðar meir upp­götvaði hún taekwondo þar sem hún blómstraði, að eigin sögn. Hún fór að grennast, þó það hafi ekki verið mark­miðið, og í kjöl­farið hrósuðu henni margir sem ýtti undir frekari átraskanir.

„Það var svo auð­velt fyrir mig að borða lítið sem ekkert enda svo upp­tekin og ég fór að tengja þetta saman, að borða lítið, æfa mikið og líta svona vel út. Ef ég gat komist í gegnum heilan dag án þess að borða fannst mér það sigur,“ segir Margrét.

Miklar sveiflur

Eftir tæp tvö ár var hún orðin hættu­lega grönn og gat varla æft vegna orku­leysis en þá áttaði hún sig á því að þetta væri orðið vanda­mál. Hún óttaðist þó enn að þyngjast og ein­kenndust næstu ár af miklum sveiflum.

Hún byrjaði í módelfit­ness og unni sér vel þar til að byrja með en síðar meir fór hún að mynda með sér aðrar átraskanir þar sem hún vildi hafa full­komna stjórn á matar­æði sínu. Hún á­kvað að hætta keppni árið 2017 og hófst þá bata­ferli hennar.

„Mig langaði ekki að fórna heilsu minni fyrir ein­hvern bikar. Það fyrsta sem ég gerði var að viður­kenna að ég hefði enga stjórn lengur og á­kvað að þiggja alla þá að­stoð sem mér byðist.“

Við­talið við Margréti í heild sinni má finna hér.