Margrét Gauja fékk CO­VID á síðasta ári: Tíma­mót um helgina – „FAGNIÐ MEÐ MÉR!“

Hlutirnir virðast þokast í rétta átt hjá Margréti Gauju Magnús­dóttur, leið­sögu­manni og fyrr­verandi bæjar­full­trúa í Hafnar­firði, eftir að hún veiktist af CO­VID-19 í fyrstu bylgju far­aldursins.

Margrét veiktist í mars síðast­liðnum en í við­tali við Frétta­blaðið í septem­ber lýsti hún eftir­köstum veikindanna. Talaði hún meðal annars um breytt bragð- og lyktar­skyn og sagði meðal annars: „Það bragðast allt ó­geðs­lega.“

Í færslu á Twitter-síðu sinni um helgina fagnaði hún því inni­lega að vera farin að geta drukkið Coca Cola á nýjan leik. Í færslunni sagði hún:

„ÉG GET DRUKKIÐ COCA COLA!!! ÞAÐ BRAGÐAST EKKI LENGUR EINS OG LAMBA­KJÖT SEM HEFUR MYGLAÐ NIÐUR Í SVARTAN VÖKVA. FAGNIÐ MEÐ MÉR!!!!“

Margrét segir svo í at­huga­semd undir færslunni að það hafi gengið betur að glíma við eftir­köstin á þessu ári og því eru hlutirnir vonandi að færast í rétta átt. „Næst er að prófa mandarínur og Pepsi Max,“ segir hún.