Margrét Frið­riks­dóttir sakar Stundina um „ó­vandaða og hlut­drægna blaða­mennsku“

Margrét Frið­riks­dóttir greinir frá því á Face­book síðu sinni að hún hafi sent inn kvörtun til fjöl­miðla­nefndar vegna um­fjöllun Stundarinnar á máli tengt Semu Erlu Serdar en líkt og áður hefur verið greint frá kærði Sema Margréti fyrir líkams­á­rás og hótanir fyrir tveimur árum eftir at­vik sem kom upp fyrir utan veitinga­staðinn Benzin um verslunar­manna­helgina árið 2018.

Margrét viður­kenndi eftir at­vikið að hún hafi ýtt við Semu og kallað hana illa inn­rætta mann­eskju eftir að hún var beðin um að yfir­gefa staðinn vegna Semu. Hún greindi frá því í kjöl­farið að hún hafi beðið Semu af­sökunar vegna málsins en Sema á­kvað engu að síður að kæra.

Síðast­liðna verslunar­manna­helgi birti Sema síðan færslu þar sem hún sagði ekkert hafa heyrt frá lög­reglu um málið og að fyrir­spurn hennar um stöðu málsins væri ekki svarað. Í færslunni segir Sema að um hafi verið að ræða haturs­glæp og að lög­regla þyrfti að gera betur í að vernda þol­endur slíkra glæpa.

Stundin fjallaði daginn eftir um færsluna og segir Margrét að miðillinn hafa „mark­visst stundað á­róður gagn­vart mér sem per­sónu í nokkur ár,“ og að þau hafi fjallað ein­hliða um málið tengt Semu. „Þrátt fyrir beiðni þá hafa þeir aldrei birt mína hlið á málinu, slíkir starf­sættir blaða­manna og miðla er brot á fjöl­miðla­lögum,“ segir Margrét og vísar til 26. greinar laga um fjöl­miðla.

„Í lýð­ræðis­legu sam­fé­lagi tel ég ó­lýðandi að ís­lenskur miðill stundi jafn ó­vandaða og hlut­drægna blaða­mennsku sem lútar að því að róg­bera og mann­orðsmyrða fólk með miðilinn að vopni og neita að birta alla mála­vexti eða gefa færi á and­svari, þarna tel ég miðilinn ekki einungis brjóta fjöl­miðla­lög heldur einnig siðar­reglur blaða­manna,“ segir Margrét enn fremur.

Með færslunni fylgir skjá­skot af tölvu­pósti Margrétar til rit­stjórnar Stundarinnar frá 5. ágúst þar sem hún hvetur miðilinn til að fjalla einnig um sína hlið málsins en að sögn Margrétar hefur þeim pósti ekki enn verið svarað.