Margrét: Erfitt að kaupa inn rétt magn í næstu verslun

Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri Pfaff á Íslandi, segir að erfitt sé að kaupa inn rétt magn af mat í næstu verslun eftir að kjötborðin svo að segja hurfu úr verslunum og farið var að selja forpakkað kjöt í staðinn.

Margrét veltir þessu fyrir sér í bakþönkum Fréttablaðsins í dag og geta vafalítið margir tekið undir orð hennar.

„Eins og lífið gengur oftast fyrir sig fluttu börn okkar hjóna að lokum að heiman og við þurftum að finna taktinn á ný í tveggja manna tangó. Tómleikinn var þrúgandi um stund en smám saman vandist þetta litla heimilishald og kostir komu í ljós. Frelsið var algjört og einungis ákvörðun tveggja hvað gera skyldi að loknum vinnudegi. Spurningin var bara hvað okkur langaði að gera – það hafði á vissan hátt verið endanlega klippt á naflastrenginn,“ segir Margrét.

Hún segir að það hafi tekið suma hluti lengur að aðlagast tveggja manna heimilishaldi en aðra. Þannig hafi færst ró yfir þvottahúsið enda virtist vart taka því að þvo af tveimur einstaklingum. Þá var sjaldnar ágreiningur um hvað horfa skyldi á í sjónvarpinu.

„En í eldhúsinu virtist hins vegar allt óbreytt. Eiginmanninum, sem um árabil hafði að mestu séð um eldamennskuna, reyndist lífsins ómögulegt að elda fyrir tvo og frystirinn fylltist af afgöngunum, sem þó sjaldan var munað eftir. Og ástæðan kom fljótlega í ljós,“ segir Margrét sem bætir síðan við:

„Eftir að kjötborð hurfu svo að segja úr verslunum og allt kjöt er forpakkað miðast skammtastærðir framleiðenda við einhverjar vísitölufjölskyldur. Að finna hæfilegt magn í kvöldmat fyrir tvö reyndist erfitt sem er undarlegt þar sem um 50.000 heimili í landinu eru með 1-2 íbúa.“

Margrét bendir á að matarsóun sé risavaxið vandamál í heiminum í dag enda talið að um þriðjungur af þeim mat sem er framleiddur endi í ruslinu með tilheyrandi gígantísku kolefnisspori.

„Ef fataframleiðendur bjóða neytendum upp á stærðir XS-S-M-L-XL-XXL þá hljóta matvælaframleiðendur að geta aukið úrvalið. Heimurinn verður að draga út matarsóun og fyrsta skrefið er að geta keypt inn rétt magn í næstu verslun.“