Margir forviða á hertum samskiptareglum í lokuðum hópi Samfylkingarfólks

Fjörugar umræður fara nú fram í lokuðum Facebook-hópi félaga í Samfylkingunni um nýjar samskiptareglur sem tekið hafa gildi. Kjartan Valgarðsson, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, kynnti reglurnar sem stjórn Samfylkingarinnar stóð á bak við. Óhætt er að segja að þær hafi mælst misjafnlega fyrir.

Innlegg Kjartans byrjar svona:

NÝJAR REGLUR UM SAMSKIPTI Í LOKUÐUM FACEBOOK HÓPI FÉLAGA SAMFYLKINGARINNAR

„Lokaður hópur á Facebook fyrir félaga í samfylkingunni hefur verið til staðar um nokkurra ára skeið. Þar hafa farið fram gagnlegar, uppbyggilegar og frjóar samræður og rökræður um stjórnmál, Samfylkinguna, jafnaðarstefnuna og leiðir til að bæta okkar samfélag. Því er ekki að neita að stundum fara umræður út fyrir það sem eðlilegt er og æskilegt í svona hópi. Þá er átt við óviðeigandi ummæli um aðra félaga í hópnum, virðingarleysi, dónaskap og jafnvel einelti,“ segir í innleggi Kjartans.

Þá segir að nokkur fjöldi fólks hafi komið þeirri skoðun á framfæri við forystufólk í flokknum að hér verði að grípa í taumana og setja reglur sem hygla samskiptum sem byggja á málefnum og virðingu fyrir skoðunum annarra, á kostnað dónaskapar, ásakana og almennt óviðeigandi ummæla. Meðal þeirra breytinga sem nýju reglurnar hafa í för með sér er að nú þurfa stjórnendur að samþykkja öll ný innlegg áður en þau birtast. Þá eru ómálaefnalegar athugasemdir ekki leyfðar og ekki heldur óviðeigandi, stuðandi, hæðnisfullar eða meiðandi athugasemdir.

Sorglegt og misráðið?

Eins og að framan greinir eru skiptar skoðanir um þessar nýju reglur. Sumir fagna þeim á meðan aðrir eru býsna gagnrýnir á þær.

„Þetta eru reglur hreinnar og ómengaðrar ritskoðunar ... og jákvæðni gagnvart þeim byggir öll á að fólk treysti því og trúi því að „gott fólk“ og „réttsýnt“ sé bak við ritskoðunarvaldið,“ segir í einni athugasemd. „Sorglegt og misráðið, gæskur,“ segir í annarri athugasemd.

Einar Kárason, varaþingmaður flokksins, bregst við með nýju innleggi og segir:

„NÝJAR REGLUR UM SAMSKIPTI Í LOKUÐUM FACEBOOK HÓPI FÉLAGA SAMFYLKINGARINNAR.“
Hér duga greinilega ekkert minna en hástafir. Pólítbíró hefur talað!“

Svona gerir ekki flokkur með sjálfstraust

Karl Th. Birgisson er einnig nokkuð gagnrýninn á þetta og segir meðal annars: „Nú eru síðustu forvöð að tjá sig hér án sérstaks leyfis fáeinna einstaklinga. Ég ætla að gera það. Mér sýnist mjög ákveðin tilhneiging uppi í flokknum hina seinni mánuði. Hún er í átt að þrengingu og lokun,“ segir hann og nefnir þrennt máli sínu til stuðnings.

„Fyrst með klíkuaðferðum við val á framboðslista í stærstu kjördæmunum, þar sem fáir ákveða í stað nokkurra þúsunda. Í þessu felst enginn dómur um niðurstöðuna, aðeins um aðferðina og meðfylgjandi áhrif.

Svo með úthringingum þar sem fólki er boðið að fyrra bragði að fara úr flokknum. Um þetta eru allnokkur dæmi og enn óútskýrt hvað býr að baki. Loks með því að takmarka skoðanaskipti hér við það sem enn þrengri hópi þykir viðurkvæmilegt og viðeigandi, eða bara smekklegt.“

Er það mat Karls að stórir flokkar séu eðli málsins samkvæmt opnir og lýðræðislegir. Þar leyfist skoðanaskipti, jafnvel harkaleg og jafnvel um einstaklinga. „Litlir flokkar eru þröngir og lokaðir. Þar eru sjónarmið útilokuð og fólki úthýst. Setjið upp tímalínu framboðsmál flokksins í Reykjavík og fylgistap. Fjögur til fimm prósentustig í hverri könnun á fætur annarri er staðfest og raunverulegt fylgistap. Engin heimsins meðvirkni og sjálfhælni, útilokanir eða hömlur á tjáningu breyta þessu. Þau eru varnarviðbrögð hins óttaslegna, ekki flokks með sjálfstraust.“