Manndráp í Rauðagerði: Lætur eftir sig ólétta konu og ungt barn

Karlmaðurinn sem var skotinn fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði í gærkvöldi lætur eftir sig bæði eiginkonu og ungt barn. Konan hans var ólétt. Fyrst var greint frá á vef Fréttablaðsins.

Þar kemur fram að konan hafi verið heima með ungt barn þeirra þegar maðurinn var skotinn fyrir utan. Hann lagði bíl sínum í bílskúrinn og var á leið inn þegar hann var skotinn. Í kvöldfréttum RÚV kom fram að stéttin fyrir utan hefði verið alblóðug.

Nágrannar mannsins sögðust í viðtali við mbl.is ekki hafa heyrt neina skothvelli og ekki gert sér grein fyrir því að nokkuð væri í gangi fyrr en lögreglan var mætt á vettvang.

Karlmaðurinn er upprunalega frá Albaníu. Hann var úrskurðaður látinn á Landspítalanum.

Einn karlmaður, á fertugsaldri, er í haldi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna málsins. Á vef Fréttablaðsins kemur fram að lögreglan hafi gert kröfu um að hann verði úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Fleiri fréttir