Máni: Eiður Smári ætti að fara í meðferð

Fjölmiðlamaðurinn og umboðsmaðurinn Máni Pétursson segir að Eiður Smári Guðjohnsen ætti að fara í meðferð við áfengisvanda.

Eiður Smári hefur verið á milli tannanna á fólk frá því að myndband af honum að kasta af sér vatni í Aðalstræti liðna helgi fór í dreifingu á samfélagsmiðlum. Í mars síðastliðnum var Eiður einnig til umræðu, þá fyrir að virðast vera undir áhrifum áfengis í beinni útsendingu. Eiður er aðstoðarþjálfari landsliðs karla í knattspyrnu. Mál Eiðs er nú til skoðunar hjá stjórn KSÍ.

Máni sagði í útvarpsþættinum Harmageddon í gær að Eiður ætti að hætta að neyta áfengis.

„Ég held að Eiður kallinn þurfi að fara á snúruna. Með fullri virðingu, fullur í útsendingu.“

Frosti Logason, hinn þáttastjórnandi Harmageddon, sagði: „Ég myndi segja honum það ef ég væri persónulegur vinur hans.“

Máni sagði að það væri annað ef Eiður væri skemmtilegur undir áhrifum: „Þú sérð það bara í útsendingunni, hann er ekkert skemmtilegur drukkinn,“ sagði Máni. „Ég held að hann ætti að hringja í vini sína og spyrja hvort hann sé skemmtilegur drukkinn. Ef menn segja: „Þú ert ekki skemmtilegur drukkinn kallinn minn“. Þá ætti hann að fara í meðferð.“

Máni segir engar líkur á því að atvikið verði til þess að Eiður verði rekinn úr starfi sínu. „Hann verður ekkert rekinn. Hvers konar Handmaiden‘s Tale, tepruland er þetta ef það kemur: „Landsliðsþjálfari Íslands var rekinn“. „Hvað gerði hann?“ – „Hann var að míga á Ingólfstorgi.“ Var hann að gera hvað? Það er of langt gengið.“