Máni drakk ekkert nema djús í þrjá daga: „Þetta er það allra versta sem ég hef gert“

„Þetta er það allra versta sem ég hef gert, meira að segja var þetta verra en að drekka piss,“ segir Máni Snær Þor­láks­son, blaða­maður á DV, í skemmti­legum pistli á vef DV.is.

Máni segir þar frá á­huga­verðri til­raun sem hann gerði fyrir skemmstu þegar hann drakk ekkert nema djús í þrjá daga.

Máni er mikill mat­gæðingur og finnst matur ekkert eðli­lega góður. „Eitt af því sem ég hlakka mest til að gera á hverjum degi er að fá mér góðan há­degis­verð. Stundum sit ég við tölvuna frá því að ég mæti í vinnuna og hugsa og spekúlera í því hvað ég eigi að fá mér í há­degis­mat,“ viður­kennir Máni fús­lega í pistlinum.

Það var rit­stjóri Mána á DV sem plataði hann til að prófa kúrinn. „Þetta eru svo góðir djúsar og síðan máttu drekka átta svo­leiðis á dag – maður verður ekkert svangur,“ hefur Máni eftir Tobbu Marinós­dóttur, rit­stjóra.

Úr varð að hann pantaði sér 24 flöskur af djúsi á föstu­degi en á­takið hófst svo á mánu­degi. „Þetta var bara fínt,“ hugsaði hann með sér eftir fyrsta djúsinn og gekk fyrsti dagurinn vel.

„Ég drakk appel­sínu­safa, sem var frekar góður, rauð­rófusafa, sem var ekkert allt­of góður, og síðan drakk ég græn­metis­safa, sem var ekkert annað en við­bjóðs­legur á bragðið. Allt í allt var þetta þó allt í lagi þennan fyrsta daginn, fjöl­breyti­leikinn var fínn og gerði það að verkum að mér leið ekki eins og ég væri að borða það sama allan daginn.

Máni segir að hann hafi gert sér grein fyrir því annan daginn að fjöl­breyti­leikinn var ekki eins mikill. „Ég átti að drekka ná­kvæm­legu sömu djúsa og í gær – en bara í annarri röð. Alveg var það hreint frá­bært, ég sem hélt að ég fengi að smakka nóg af skrýtnum og skemmti­legum djúsum átti bara að drekka það sama þrjá daga í röð. Allt í einu varð appel­sínu­safinn ekki svo góður, berja­safinn varð sömu­leiðis slappur og græn­metis­safinn varð enn við­bjóðs­legri. Mig langaði heitt og inni­lega að tyggja eitt­hvað,“ segir hann.

Máni segir að síðasta daginn hafi hann varla hugsað um annað en hvað hann ætti að fá sér að borða á morgun. „Ég hlakkaði svo til, ekki bara til að fá gott bragð heldur líka bara til að tyggja matinn minn frekar en að drekka hann. Safarnir sem mér fannst vera góðir fyrsta daginn voru orðnir fyrir­sjáan­legir, leiðin­legir og vondir. Safarnir sem mér fannst vera vondir voru orðnir verri. Ég fann lífs­vilja minn leka í burtu með hverjum sopa. Ég var meira að segja hættur að nenna að ropa,“ segir hann.

Máni náði þó að ljúka þessum þremur dögum, en kveðst nú vera reynslunni ríkari. „Ef það er eitt­hvað sem ég hef lært af þessu þá er það að fara ekki á svona djú­s­kúr. Ég fann að ég varð líka að miðla reynslunni minni á­fram til fólks og þess vegna er ég að skrifa þetta, svo engum sem les þetta muni detta það í hug að fara á svona djú­s­kúr.“

Pistil Mána má lesa í heild sinni hér.

Fleiri fréttir