Mál Arnarholts verður tekið fyrir í borgarstjórn: „Nístir alveg í hjartað að lesa þessar lýsingar“

10. nóvember 2020
23:04
Fréttir & pistlar

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri greinir frá því í samtali við mbl.is að mál vistheimilisins Arnarholts á Kjalarnesi verði tekið fyrir í borgarstjórn en greint var frá vanrækslu og lélegum aðstæðum á heimilinu í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins.

Í frétt RÚV um málið var vísað í vitnaleiðslur starfsmanna heimilisins en vistfólk sem dvaldi á heimilinu til ársins 1971 var meðal látið dúsa svo vikum skipti inni í steinsteyptum einangrunarklefa með járnrimlum og litlum glugga.

Þá lýstu starfsmenn því að fólki var refsað með því að fá ekki mat og því hent út í hvaða veður sem er og fólkið læst úti. Starfsmennirnir greindu enn fremur frá því að andlát hafi ekki verið rannsökuð en nokkuð var um andlát vegna vanrækslu.

Ein versta frásögnin snýr að tvítugum manni með þroska á við átta ára barn sem settur var þangað inn í nokkrar vikur fyrir að strjúka til móður sinnar. „Ég reyni ekki að lýsa hugarstríði og líðan drengsins, til þess á ég engin orð,“ sagði einn starfsmaður um málið.

„Ótrúlega sárt“

„Þó það séu fimmtíu ár liðin þá nístir alveg í hjartað að lesa þessar lýsingar, bæði um aðbúnað og afdrif einstaklinga sem voru á Arnarholti samkvæmt þessum vitnaleiðslum,“ sagði Dagur í samtali við mbl og bætti við að hann hafi ekki séð vitnaleiðslurnar áður.

Samkvæmt frétt RÚV var athygli vakin á málinu í borgarstjórn árið 1970 og ákveðið að rannsaka málið frekar. Nefnd sem sá um rannsóknina sagði þó ekki vera þörf á neinum aðgerðum.

Dagur segir að vel hafi verið farið yfir skýrslu vistheimilanefndir á sínum tíma en sú skýrsla sneri að aðbúnaði barna á vistheimilum. Hann segir að það sé mikilvægt að fólk sé vakandi.

„Ég efast ekki um það að við munum fara yfir þessi mál og afla okkur upplýsinga um þau,“ sagði Dagur. „Það er ótrúlega sárt að lesa þetta, þó að nokkuð sé um liðið.“

Ítarlega frétt RÚV um Arnarholt má lesa hér.

Vistheimilið Arnarholt var fyrst opnað árið 1945 og var notað sem heilbrigðisstofnun til ársins 2005.
Fréttablaðið/Vilhelm