Keyptu eitt dýrasta og glæsilegasta einbýlishús landsins: 655 fm að stærð - myndasyrpa

19. febrúar 2020
16:00
Fréttir & pistlar

Magnús Ármann, fjárfestir, og eiginkona hans, Margrét Íris Baldursdóttir, keyptu sér eitt dýrasta einbýlishús landsins nú á dögunum, við Frjóakur 9 í Garðabæ. Frá þessu er fyrst greint á Smartlandi á vef mbl.is.

Um er að ræða 655,6 fm hús sem byggt var fyrir þremur árum síðan, árið 2017. Innanhúsarkitektinn Berglind Berndsen sá um innanhúshönnunina og er fasteignamat hússins 261.300.000 krónur. Magnús Ármann hefur lengi verið áberandi í íslensku viðskiptalífi og hefur látið til sín taka fyrir og eftir Hrun.

Húsið keyptu hjónin af athafnamanninum Antoni Krisni Þórarinssyni. Það er málað í í sveppalit og eru gluggarnir svartir auk handriðs í kringum verönd.

Magnús hefur undanfarna tvo áratugi verið áberandi í íslensku viðskiptalífi. Hann rak skemmtistaðinn Astro til margra ára og færði sig svo í fjárfestingar ásamt Sigurði Bollasyni, vini sínum.

Þá var Magnús hluthafi í FL Group sem nú kallast Stoðir. Félagið hefur á undanförnum árum gengið í gegnum miklar breytingar. Félagið var áður stærsti eigandi Glitnis. Félagið fór í greiðslustöðvun og nauðasamninga í kjölfar fall bankans og eignaðist Glitnir, sem stærsti kröfuhafinn, félagið að stórum hluta.

2017 urðu svo stórar breytingar í eigendahópi félagsins og seldi þá Glitnir Holdco 40 prósent hlut í félaginu og félögin S121 ehf. og S122 ehf keyptu rúmlega helmingshlut.

Magnús og Íris gengu í hnapphelduna í nóvember síðastliðnum og eiga saman þrjú börn. Það mun án efa fara vel um fjölskylduna á nýju og rúmgóðu heimili.

Hér má sjá myndskeið frá heimsókn Sindra í eitt dýrasta einbýlishús landsins: