Magnús og Lenya ósátt: „Ógilding kosninganna blasir við“ - Ingi svarar fyrir sig

Magnús Davíð Norð­dahl, lög­maður og odd­viti Pírata í Norð­vestur­kjör­dæmi fyrir síðustu Al­þingis­kosningar, vandar Inga Tryggva­syni, for­manni yfir­kjör­stjórnar Norð­vestur­kjör­dæmis, ekki kveðjurnar á Face­book síðu sinni í dag.

Til­efnið er svar­bréf Inga við þeim kærum sem bárust vegna Al­þingis­kosninganna í síðasta mánuði. Svar­bréfið er sýni­legt á vef Al­þingis. Þar gefur Ingi ekki tommu eftir og svarar hverri einustu kæru fullum hálsi.

„Mann­leg mis­tök“

Magnús tekur upp hanskann fyrir sam­flokks­konu sína Lenyu Rún Taha Ka­rim, en hún féll af þingi í kjöl­far seinni talningarinnar í Norð­vestur­kjör­dæmi. Hún var ein af þeim sem kærðu kosningarnar og ætlar Ingi al­deilis ekki að láta hana vaða yfir sig.

Í svarinu sínu til Lenyu segir Ingi meðal annars: „Það vekur furðu að kærandi vilji byggja niður­stöður úr kosningu til Al­þingis á rangri talningu sem varð til fyrir mann­leg mis­tök“ og: „Að­dróttanir um að odd­viti hafi spillt kjör­gögnum er harð­lega mót­mælt enda engin rök færð fyrir þeirri full­yrðingu. Raunar er um rangar sakar­giftir að ræða sem eru refsi­verðar.“

Við þessu of­býður Magnúsi og segir „Að for­maður yfir­kjör­stjórnar Norð­vestur­kjör­dæmis saki fram­bjóðanda Pírata, Lenyu Rún, um rangar sakar­giftir er al­gjör­lega frá­leitt og ó­mak­legt.“

Og hann heldur á­fram: „Lenya Rún gerði ekki annað en að benda á þá stað­reynd í sinni kæru að for­maðurinn var einn með ó­inn­sigluðum kjör­gögnum í tölu­verðan tíma áður en aðrir kjör­stjórnar­með­limir mættu á staðinn vegna fyrir­hugaðrar endur­talningar.“

„Ætti að leiða til ó­gildingar kosninganna“

Magnúsi finnast vinnu­brögð talningarinnar grun­sam­leg: „Í bunka sem telur 50 at­kvæði, sem þá er strax dreginn upp úr kassa með at­kvæðum Við­reisnar, finnst stærsta skekkja fyrri talningarinnar, þ.e. heil 9 at­kvæði sem til­heyrðu öðrum fram­boðum. Eru það rangar sakar­giftir að benda á at­riði sem fyrir liggur og fram kemur í gögnum máls og er í eðli sínu grun­sam­legt?“ segir Magnús.

Magnús vill láta ó­gilda kosningnarnar: „Kjarni málsins er sá að al­var­legir á­gallar eru til staðar sem leiða til ó­gildingar kosninganna í Norð­vestur­kjör­dæmi. Niður­stöður breyttust á milli talninga sem leiddu til breyttrar sam­setningar þingsins og ekki er lengur hægt að sann­reyna hvor talningin er rétt vegna brota kjör­stjórnar á kosninga­lögum.“

Hann heldur á­fram: „Hefðu vörslur kjör­gagna verið full­nægjandi mætti sann­reyna hvor talningin hafi verið rétt en sá ó­mögu­leiki er bein af­leiðing af broti kjör­stjórnar að hafa ekki farið að lögum varðandi varð­veislu kjör­gagna. Þetta at­riði eitt og sér ætti að leiða til ó­gildingar kosninganna,“ segir Magnús.

Hann segir að lög­fræði­menntaðir Al­þingis­menn hljóti að átta sig á stöðu mála: „Við þetta bætist að lög­reglan á Vestur­landi telur að kjör­stjórnar­með­limir hafi gerst sekir um refsi­verða hátt­semi og hefur gert um­ræddum aðilum að greiða sekt. Verði sektirnar ekki greiddar má búast við útáfu á­kæru og rekstur saka­máls. Það er ekki eftir neinu að bíða. Ó­gilding kosninganna blasir við. Þing­menn sem hafa setið lengi á Al­þingi og eins þeir þing­menn sem eru með lög­fræði­menntun átta sig á þessu,“ segir Magnús.

Hann lokar pistlinum með slag­orði Pírata fyrir síðustu Al­þingis­kosningar: „Lýð­ræði ekkert kjaft­æði.“

„Er sak­næmt að benda á mis­tök?“

Um­rædd Lenya Rún blandar sér í um­ræðuna á Twitter síðu sinni. Ingi Tryggva­son spurði stuttu eftir kosningar hvort sak­næmt væri að gera mis­tök. Hann vildi meina að mis­tök við talningu at­kvæðanna hefðu ekki verið sak­næm, heldur einungis mann­leg mis­tök, eins og fram kom hér að ofan.

Lenya grípur þetta á lofti eftir vendingar dagsins í dag og síðustu daga og segir: „Nú spyr ég líkt og for­maður yfir­kjör­stjórnar: er sak­næmt að benda á mis­tök?“