Magnús helgi er látinn: „að láta gott af sér leiða er mikilvægt í lífinu“

Magnús Helgi Ólafsson fæddist á Ísafirði 4. Júlí 1940. Hann lést 20. maí 2019. Magnús kvæntist 21. apríl 1962 Hildi Bergþórsdóttur, f.23. mars 1941.

Magnús ólst upp á Ísafirði. Hann stundaði nám á Núpi í Dýrafirði í tvö ár fyrir landspróf og fluttist síðan til Reykjavíkur með foreldrum sínum. Eftir útskrift starfaði hann sem íþróttakennari á Reykjaskóla í Hrútafirði í fjögur ár en þá flutti fjölskyldan til Óslóar, þar sem Magnús stundaði nám í sjúkraþjálfun.

Magnús var einn af stofnendum Íþróttasambands fatlaðra og kynnti m.a. bogfimi og botsía fyrir fatlaða. Hann þjálfaði einnig margs konar íþróttir fyrir fatlaða og fór á íþróttamót með fötluðum, þ.á m. Tvisvar sinnum á Ólympíuleika fatlaðra.

Í minningargrein Íþróttasambands fatlaðra sem birt er í Morgunblaðinu segir:

\"\"„Á 40 ára afmælisári Íþróttasambands fatlaðra 2019 var leitast við að ná til þeirra sem ruddu brautina og hófu vegferð íþróttafatlaðra á Íslandi. Einn af þeim sem þar fóru fremstir í flokki var vinur okkar Magnús Helgi ólafsson sjúkraþjálfari. Það er mikilvægt í dag að eiga til viðtöl sem tekin voru nýlega þar sem hann sagði söguna og hvatti okkur jafnframt til að halda starfinu áfram og vinna betur að því í gegnum íþróttastarfið að rjúfa félagslega einsemd og einangrun.

Árið 1974 fór Magnús að heimsækja Norðurlönd og England þar sem hann var í tvo og hálfan mánuð til að kynna sér íþróttastarf fatlaðra, þýða reglur og kynna sér áhöld og tækjabúnað. Við komu til Íslands hóf hann að kynna boccia, bogfimiog krullu og á þessum tíma voru stofnuð fyrstu íþróttafélög fatlaðra á Íslandi.

Magnús kom að kynningarstarfi ÍF í fjölda ára og var alla tíð boðinn og búinn að aðstoða við útbreiðslu íþrótta fatlaðra, dómgæslu á mótum og önnur verkefni ÍF. Fyrir tveimur árum kom hann á skrifstofu ÍF til að leita samstarfs við að kynna eldri borgurum í Grafarvogi boccia og það leið ekki á löngu þar til hann var búinn að setja á fót boccia-æfingar fyrir eldri borgara í Spönginni, Grafarvogi. Þetta starf þróaðist hratt og veikindi höfðu ekki áhrif á eldmóð hans í útbreiðslustarfinu sem hann sinnti af miklum áhuga þar til krafta þraut.

Lífsganga Magnúsar Helga Ólafssonar hefur sannarlega haft mikil og jákvæð áhrif á samfélagið og gefið mörgum margt.

Að láta gott af sér leiða er mikilvægt í lífinu.

Við erum mörg sem eigum Magnúsi Helga Ólafssyni mikið að þakka og Íþróttahreyfing fatlaðra kveður ómetanlegan liðsmann.“