Magnaður kanadamaður með þrenna tónleika á íslandi: kennari, bóndi, rithöfundur og sagnameistari

Magnaður Kanadamaður með þrenna tónleika á Íslandi: Kennari, bóndi, rithöfundur og sagnameistariSíðan ég kom fyrst í Árneshrepp árið 2007 hef ég verið að reyna að greiða til baka, allt það örlæti sem ég mætti hjá fólkinu hér, og heiðra þá stórbrotnu náttúru og sögu sem sveitin mín kæra býr yfir,“ segir Eín Agla Briem þjóðmenningarbóndi og hafnarstjóri í Norðurfirði í Árneshreppi. Hún stendur fyrir þriðju Íslandsheimsókn hins kanadíska Stephen Jenkinsons, sem er allt í senn rithöfundur, bóndi, kennari, sagnamaður og tónlistarmaður. Stephen og félagar halda m.a. þrenna tónleika í Íslandsheimsókninni, í Iðnó 17. júlí, Norðurfirði 19. júlí og Aratungu 22. júlí.

Stephen, sem er 65 ára, hefur að undanförnu ferðast um veröld víða ásamt hljómsveit sinni, m.a. um Norður-Ameríku, Ástralíu, Tasmaníu og Evrópu. Tónleikaröðin ber yfirskriftina Nights of Grief and Mystery, eða Kvöldstund full af dulúð og harmi. ,,Þar segir hann líka kynngimagnaðar sögur, Íslendingasögu sem er að gerast, og um leið ósamþykkta sögu Norður-Ameríku. Hann spyr spurninga á borð við: Hvað hefur komið fyrir okkur? Hvernig kom það til að við gleymdum, hver nærir okkur og hver er ábyrgð okkar í heiminum? En hann minnir okkur að það hægt að hlæja líka, þrátt fyrir allt,“ segir Elín Agla.

\"\"

Stephen Jenkinson, kanadíski hugsuðurinn, bóndinn, kennarinn og tónlistarmaðurinn, sem bundist hefur Árneshreppi sterkum böndum. Stephen og félagar verða með tónleika í Iðnó, Norðurfirði og Aratungu.

Óhætt er að segja að Stephen Jenkinson eigi engan sinn líkan, eins og glöggt kemur fram í viðtali Viðars Hreinssonar fræðimanns og rithöfundar við Stephen á Youtube. 

Viðar sagði í samtali við Hringbraut: „Mér fannst afskaplega gaman að spjalla við Stephen Jenkinson og finnst merkilegt að hann hafi með þroskað með sér sérstaka sýn á lífið í gegnum reynslu sína af dauðanum, því hann starfaði á elliheimili eða líknardeild og sat því við dánarbeð mikils fjölda fólks, og tók m.a. eftir því að þeir sem studdust við trú eða hugmyndakerfi voru síst betur búnir undir dauðann en aðrir. Hugmyndir hans um að viðurkenna dauðann, takast á við hann með opin augun og reiðubúinn er í raun djúp og hraustleg afstaða til lífsins, að taka því fagnandi en ekki sem gefnum hlut. Hann setur ekki fram kerfisbundnar hugmyndir en segir frekar sögur, eins og Kristur gerði, sem ekki eru endilega auðskildar. Maður sér heldur ekki fingraför hugsuða hugmyndasögunnar hjá honum en samt er augljóst að hann hefur víða yfirsýn. Hann seilist líka aftur fyrir hugmynda- og menningarsöguna – til helgisiða og goðsagna – til að búa til lifandi samhengi.“

\"\"

Viðar Hreinsson: Stephen er eins og lífið sjálft, í stöðugri endurnýjun, sem er einmitt  það sem nútímafólk missir sjónar af.

Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur þekkir vel til verka Stephens Jenkinsons og segir í Facebook-færslu: „Systkin mín öll í sorginni, látið ekki þessa kvöldstund framhjá ykkur fara, músík og sögur, dulúð og dauðinn! Heimildamyndin Documentary: Griefwalker fjallar um þennan magnaða Kanadamann og fyrrum líknarráðgjafa, Stephen Jenkinson, höfund bókarinnar Die Wise. Umföðmum dauðann í stað þess að óttast hann, skiljum hvað treginn felur í sér mikla ást og virðingu fyrir hverju andartaki lífsins, látum hina dánu lifa áfram í hjarta okkar.“

Meðan Stephen starfaði sem líknarráðgjafi sinnti hann um eitt þúsund deyjandi sjúklingum, og skrifaði um þá reynslu bókina sem Vilborg vitnar til „Die Wise“. En hann hefur fleira fram að færa, eins og Viðar bendir á: ,,Um leið setur hann fram hvassa gagnrýni á firrta, vestræna neyslumenningu, og hlutgervingu, einkum bandaríska, og það sambands- og samhengisleysi sem ríkir, enda felst hugsun hans um dauðann að hluta til í þvi að sýna samhengi eða framvindu í tímanum. Við þurfum að tengja afkomendur okkar í núinu við okkar liðna tíma, fortíðina, tímann í víðu samhengi, með sögum en ekki predikun. Dauðinn er bara endalok hins einstaka til þess að lífið geti haldið áfram. Takk, Elin Agla, fyrir að bjóða þessu fólki til okkar.“

\"\"

Vilborg Davíðsdóttir: Systkin mín öll í sorginni, látið ekki þessa kvöldstund framhjá ykkur fara, músík og sögur, dulúð og dauðinn!

„Ég rakst á fyrirlestur á netinu með Stephen árið 2014, og komst að því að hann var með skóla í Kanada. Ég skrifaði honum langt bréf, og spurði hvort skólinn hans væri eitthvað fyrir Árneshrepp og byggðir, sem eiga á hættu að fara í eyði. Hann svaraði að bragði, og sagðist ekki ræða svo flókin mál í tölvupóstum, svo ég skellti mér út og var kominn í skólann mánuði síðar!“ segir Elín Agla um fyrstu kynni þeirra Stephen Jenkinsons. Í skólanum er rýnt í stöðu okkar í heiminum í dag, bæði gegnum handverk, goðsagnir og klassískar bókmenntir. Fyrsta skólaheimsóknin var mér gríðarleg upplifun. Skólahaldið fór fram í mongólsku hirðingjatjaldi á sveitabæ Stephens, og þar fæddist draumurinn um að reisa slíkt tjald í Árneshreppi.“

Fyrsta heimsóknin til Kanada  2014 reyndist afdrifarík. Elín, sem var skólastjóri í Finnbogastaðaskóla 2007-10, ákvað að flytja aftur í sveitina sem er henni svo kær. 

„Eftir fyrsta námskeiðið hjá Stephen ákvað ég að flytja aftur í Árneshrepp ásamt dóttur okkar Hrafns Jökulssonar, í stað þess að skrifa mastersritgerð um sveitina góðu, og reyna að leggja mitt af mörkum í þágu mannlífsins hér. Stephen hefur tvisvar verið með skólahald í Árneshreppi, og ég hef farið tvisvar til þrisvar á ári í skólann hans úti. Hann hefur fylgst mjög náið með málum Árneshrepps í sex ár og bundist sveitinni sterkum böndum. Í fyrstu heimsókninni lét hann sig ekki muna um að bjóða öllum íbúum sveitarinnar til veislu, og það fer ekkert á milli mála að hann finnur til sterkrar samkenndar með fólkinu hér.“

Langþráður draumur Elínar Öglu um að reisa hirðingjatjald í Árneshreppi er nú orðinn að veruleika á Seljanesi, og það verður vígt nk. laugardag. Tjaldið verður vígt á laugardaginn. „Þá ætlum við að halda mikla kvennaveislu til heiðurs handverkskonum. Svo verða allir velkomnir í heimsókn og 8. ágúst verður samnemandi minn úr skóla Stephens,  Day Schildkret, með námskeið.“

Viðar hvetur fólk til að eiga kvöldstund með Stephen Jenkinson og félögum: „Það er til marks um hvað þessi óvenjulegi og einstaki hugsuður er óorþódox að hann gerðist rokkari uppúr sextugu og fór að troða upp með sýn sína á sviði, sögur, hugleiðingar  og húmor í bland við rokktónlist. Þannig er hann eins og lífið sjálft, í stöðugri endurnýjun, sem er einmitt  það sem nútímafólk missir sjónar af.“

Stephen Jenkinson og félagar í Iðnó 17. júlí, sjá hér.
Stephen Jenkinson og félagar í Ferðafélagshúsinu í Norðurfirði í Árneshreppi 19. júlí, sjá hér:
Stephen Jenkinson og félagar í Aratungu 22. júlí, sjá hér.
 

Hér fyrir neðan má sjá viðtal Viðars Hreinssonar við Stephen Jenkinson: